green-energyLandsvirkjun skilaði 11 milljarða króna hagnaði á síðasta ári sem ætti að öllu jöfnu að vera fagnaðarefni. Fólkið á kaffistofunni hefur hins vegar ákveðnar efasemdir um þessa niðurstöðu og þá kannski sérstaklega í ljósi ástandsins á íslenskum orkumarkaði.

Fyrirtækin í landinu hafa um nokkurt skeið kvartað sáran undan hárri verðlagningu Landsvirkjunar á rafmagni. Ekki er langt síðan að Félag fiskimjölsframleiðenda (FÍF) fór fram á tugprósenta lækkun á rafmagnsverði frá Landsvirkjun í ljósi hratt lækkandi olíuverðs undanfarin misseri. Fiskimjölsverksmiðjunnar hafa eytt milljörðum í að rafvæða verksmiðjur sínar en nú brenna þær olíu vegna verðstefnu Landsvirkjunar. Margir fleiri en FÍF hafa gagnrýnt þessa stefnu Landsvirkjunar en hinum ágætu herrum í Háaleiti verður ekki haggað.

Fólkinu á kaffistofunni finnst einnig undarlegt að orkuverð frá Landsvirkjun haldist enn hátt á meðan orkuverð hefur farið hríðlækkandi um allan heim. Ekki eru mörg ár síðan að forsvarsmenn Landsvirkjunar héldu þeim rökum á lofti að raforkuverð til orkusækins iðnaðar hér yrði að hækka til jafns við það sem gerðist á heimsmarkaði. Þetta var á þeim tíma sem orkuverð fór stöðugt hækkandi.

Í kjölfarið fór orkuverð hratt lækkandi og þá tóku forsvarsmenn Landsvirkjunar allt í einu annan pól í hæðina. Þeir lækkuðu verðið ekki í samræmi við þróunina á heimsmarkaði, sem hefði verið í samræmi við fyrri yfirlýsingar þeirra, heldur hækkuðu það! Skemmst er að minnast orða eins forstöðumanns Samtaka iðnaðarins sem sagði að engar haldbærar skýringar væru á þessum verðhækkunum.

Forsvarsmenn Landsvirkjunar báru hins vegar fyrir sig lögmál framboðs og eftirspurnar. Fólkinu á kaffistofunni finnst þetta mótsagnarkennt þar eð íslenski raforkumarkaðurinn er fákeppnismarkaður þar sem Landsvirkjun ræður lögum og lofum í einu og öllu og því vafasamt að venjuleg markaðslögmál framboðs og eftirspurnar gildi. Auk þess halda margir því fram á kaffistofunni að það sé hlutverk Landsvirkjunar að sjá fólkinu í landinu og fyrirtækjunum fyrir nægri orku. Því sé allt tal um skortstöðu heimatilbúið vandamál sem ekki eigi að bitna á viðskiptavinum þess.

Að lokum finnst mörgum kaffiþömburunum að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun eigi fremur að hugsa um þjóðarhag en eigin hag, og ekki einblína á háa verðlagningu sem einungis bætir hag fyrirtækisins á kostnað framleiðslufyrirtækjanna í landinu. Við þetta veikist samkeppnistaða þeirra gagnvart erlendum keppinautum enda virðast sum þeirra vera farin að hugsa sér til hreyfings frá landinu.

Comments

comments