Gunnar Heiðarsson skrifar:

Mikið hefur verið rætt um vanda stjórnmálaflokka hér á landi og það litla fylgi sem þeir ná meðal þjóðarinnar. Þó skal engan undra, flatneskjan og popppúlisminn sem ríkir meðal stjórnmálamanna er slíkur að engan greinarmun er lengur hægt að gera milli flokka. Örlítill munur er á boðun þeirra til kjósenda, svona rétt meðan verið er að sækja atkvæðin, en þegar til valda er komið er fljótt að falla undan stóru orðunum. Þá er meira horft til skoðanakannana, athugasemdadálka netmiðla og þeirra sem hæðst láta í þjóðfélaginu. Grunngildin fjúka og kjósendur standa eftir sviknir og vonlausir.

Þegar síðan fram koma stjórnmálamenn sem þora, er samstundis ráðist gegn þeim. Slíkar árásir andstæðinga í pólitík er eðlileg og skapar líflega umræðu, meðan á henni stendur. En þegar samherjar taka þátt í þessum árásum, er fokið í flest skjól, sér í lagi þar sem kjósendur kalla með örvæntingu eftir fólki sem þorir í pólitík.

Allir þekkja sögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í pólitík. Hvernig hann kom á sjónarsvið íslenskrar pólitíkur í framhaldi af bankahruninu, hvernig málflutningur hans var innan og utan þings, meðan hann var í stjórnarandstöðu, hvernig honum tókst að færa Framsóknarflokknum stórsigur í síðustu kosningum og síðan hvernig hann var myrtur mannorði af hálfu eins manns, með aðstoð ríkisfjölmiðils Íslands.

Strax og SDG tók til við að skipta sér að pólitík, hér á landi, hófust skipulagðar árásir gegn honum. Þar gekk fréttastofa ruv í fararbroddi og mun sennilega verða rannsóknarefni framtíðar framganga þess fjölmiðils gegn honum í undanfara síðustu kosninga og síðan látlausar árásir allt þar til hann var felldur í margfrægum Kastljósþætti. Þar var endanlega gengið frá mannorði SDG, á hæpnum forsendum.

Einn maður, sem hefur þá einu menntun að hafa skilað 17 einingum frá fjölbrautarskóla, fékk í hendur stolin skjöl frá lögfræðistofu í Panama. Í tíu mánuði lá þessi lítt menntaði maður yfir skjölunum og flokkaði þau, sjálfsagt eftir bestu vitund, en skorti alla menntun til starfans. Að lokinni þessarar vinnu, fékk þessi maður fyrrverandi vinnuveitanda sinn sér til fulltingis við „opinberun sannleikans“. Svo vel vildi til að þessi fyrrum vinnuveitandi mannsins var einmitt fréttastofa ruv, sú sem lengst og harðast hafði gengið í baráttunni gegn SDG.

Búið var til handrit, í samvinnu við sænska fréttastöð og leikritinu varpað til þjóðarinnar. Engin bein haldbær gögn voru lögð fram, einungis óskýrt ljósrit af pappír þar sem nafn SDG kom fram, án hans undirskriftar. Engan skal undra að viðbrögð SDG í þessari sjónvarpsupptöku voru vandræðaleg, enda komið að aftanað honum. Það er auðvelt að segja að hann „hefði“ átt að gera þetta eða hitt, en ljóst er að fáum eða engum hefði tekist að svara þessari árás, svo óvænt sem hún var. Þar að auki var leikritið þannig upp sett að nokkuð er sama hvernig viðbrögð SDG hefðu orðið, leikritshöfundar höfðu slíka yfirburði að þeim hefði í öllu falli tekist ætlunarverk sitt.

Það liggur ljóst fyrir að hvorki bókhaldslærðir né löglærðir aðilar voru látnir lesa handrit aftökunnar, enda hefði þá sennilega þetta verið stöðvað af. Það liggur einnig ljóst fyrir að fréttastofa ruv braut alvarlega lög með útvörpun þessa þáttar, bæði eigin siðferðislög sem og landslög.

Engum hefur enn tekist að sýna fram á sekt SDG. Helstu sérfræðingar Guardian hafa farið yfir málið og segja enga sök hans vera til staðar. Þá hefur Guðbjörn Jónsson rannsakað þetta mál, svo vel sem má, samkvæmt gögnum Panama skjalanna og ættu allir að lesa þá úttekt hans. Nú, þegar flestum er ljóst að SDG er ekki sekur í þessu máli, er því haldið fram að hann hafi brotið siðferði og skaðað trúverðugleik sinn. Hvernig má það vera þegar til þess meinta brots er stofnað með siðferðisbrot? Hver er þá trúverðugleiki fréttastofu ruv?!

Hvernig má það vera að þjóðin leggur meiri trúnað í framsetningu fréttastofu ruv, byggða á orðum og gögnum frá manni, sem hann lá á í tíu mánuði og flokkaði, án nokkurrar þekkingar á því sviði, en orð æðsta manns þessa lands, sem hefur sýnt og sannað að hann hefur kjark til að standa við stóru orðin?! Er afl fjármagnsins svo gífurlegt hér á landi að þeim tekst að sannfæra þjóðina um að fyrirlýta það fólk sem þeim öflum stafar ógn af?!

Eygló Harðardóttir er nú undir árásum fréttastofu ruv. Hennar mannorð skal svert eða drepið. Þó gerði hún það eitt að standa á sinni sannfæringu, sannfæringu sem hún hafði þegar gefið út innan ríkisstjórnar.

Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir hafa sagt að þau ætli ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi starfa á Alþingi. Allt var þetta fólk, ásamt SDG. EH og fleira fólki innan Framsóknarflokks, lykilfólk í andstöðunni við icesave samningana, allt var þetta fólk afgerandi í sigri Framsóknarflokks í síðustu kosningum og allt hefur þetta fólk verið í lykilstöðu þess að tókst að láta kröfueigendur borga sig út úr þjóðfélaginu. Þetta fólk hefur verið helsta baráttufólkið gegn fjármagnsöflunum og haft kjark til að standa á þeirri sannfæringu. En þegar slík sannfæring og vinna færir fólki bara eintóman óhróður, er ekki undarlegt að það gefist upp. Þegar fólk vinnur stórvirki fyrir þjóðina, en þjóðin stendur óhaggað með þeim sem pínir hana, fjármagnsöflunum, er til lítils að sóa lífi sínu í það.

Það er ekki nema eðlilegt að andstæðingar í stjórnmálum gleðjist þegar óvinurinn lendir í vanda, að ekki sé talað um að þeir séu nánast hálshöggnir í beinni útsendingu. Það er og á að vera eðlilegt, svo fremi að heiðarlega sé að máli staðið. Pólitískir andstæðingar ættu þó aldrei að nýta sér mannorðsmorð andstæðingsins, mannorðsmorð byggt á hæpnum forsendum, sér til framdráttar.

Hitt er verra, þegar samherjar í pólitík nýta sér slíkt. Því miður er það svo að nokkrir samherjar eru ávallt fljótir til þegar á ofangreint fólk er ráðist. Þar hafa samherjar í samstarfsflokknum gengið hvað lengst og sumir jafnvel líkt þessu við súkkulaðinammi. Ljótari er þó leikur sumra samflokksmanna þessa fólks. Þar er vissulega fínna farið í málin, þó sannarlega maður hafi séð hlakka í mörgum liðleysingja Framsóknarflokks, sér í lagi vegna mannorðsmorðs Sigmundar Davíðs. Þar telja sumir sig eiga harma að hefna, meðan aðrir sjá hugsanleg tækifæri í að klifra örlítið upp stigann. Þetta fólk hefur ekki burði til að koma sér upp á eigin verðleikum og nýtir því ófarir annarra til að upphefja sig.

Það voru því mikil vonbrigði að sjá að nýjasti starfsmaður Framsóknarflokks, hin unga Lilja Alfreðsdóttir tók sér stöðu gegn kjarkfólkinu innan flokksins. Framtíð hennar í stjórnmálum verður ekki bjartari við það.

Flatneskjan í íslenskum stjórnmálum er nánast ógeðslegt fyrirbrigði. Eitt orð hefur verið fundið upp í íslenskri tungu, hin síðari ár, það er orðið „samræðustjórnmál“. Samkvæmt skilgreiningu þeirra sem þetta orð nota, þá eiga allir flokkar að vinna saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Til hvers þarf þá að kjósa? Má þá ekki bara skipa hverjum stjórnmálaflokk ákveðinn fjölda þingmanna og spara þá fjármuni sem fer í kosningar? Ef þeir sem lægri hlut hljóta í augum kjósenda eiga að hafa sömu völd og hinir sem þóknast kjósendum, þarf ekki að kjósa.

Stjórnarandstaðan fagnaði afsögn SDG og segir að meiri friður hafi skapast á Alþingi. Réttara er að tala um að stjórnarandstaðan hafi fengið aukið afl innan Alþingis, vegna liðleskju þeirra sem eftir sátu í ríkisstjórn. Er það svo í anda lýðræðisins, að þeir flokkar sem kjósendur höfnuðu í síðustu kosningum, ráði hvernig þeir flokkar sem þjóðin treysti, stjórnar? Þetta er hin sanna birtingarmynd „umræðustjórnmála“, hin sanna flatneskja íslenskra stjórnmála.

Þegar ég geng til kosninga þá kýs ég þann stjórnmálaflokk sem hefur stefnu sem mér hugnast og fólk sem ég treysti. Ef vilji meirihluta kjósenda er mér sammála, þá ætlast ég til að stjórnunin verði samkvæmt þeirri stefnu, út allt kjörtímabilið. Ef meirihluti kjósenda er mér ekki sammála, þá sætti ég mig við það, uns kjörtímabilinu lýkur. Svo einfalt er það.

Málpípur fjármagnsaflanna mun aldrei getað breytt þeirri hugsun minni, í hvaða mynd sem þau birtast, hvort það er í formi fréttastofu, í formi „virkra í athugasemdum“, né heldur í formi hávaðaseggja á götum og torgum!!

Comments

comments