Í grein í Morgunblaðinu í dag  og á heimasíðu sinni sigmundurdavid.is  fer Sigmundur Davíð stuttlega yfir aðförina að Reykjavíkurflugvelli og síðar hans aðkomu  að málinu sem Forsætisráðherra. Þar segir hann:

Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. Óvissuna höfðu þeir reyndar skapað sjálfir með því að leggja fram tillögu að aðalskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að norður/suður-brautin, önnur af stóru brautum flugvallarins, viki árið 2016.

Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.

Fallist var á þetta og samkomulagið undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.

Ljóst er að  Forsætisráðherran fyrrverandi er forviða á dómnum eins og fleiri. Og svo þegar fjármálaráðuneytið staðfestir söluna á landinu án frekari skoðunar og þeirri stöðu sem málið er í finnst honum keyra um þverbak. Eða einsog Sigmundur segir sjálfur;

Ég læt vera að fjalla um tæknilegar forsendur lokunarinnar þótt ærið tilefni sé til að leiða þá umræðu til lykta eins fljótt og auðið er. En á meðan sú umræða stendur enn berast þær óvæntu og óskemmtilegu fréttir að ríkið hafi selt Reykjavíkurborg rúmlega 110.000 fermetra land sem nú er undir suðurenda umræddrar neyðarbrautar fyrir 440 milljónir króna. Þetta er algjörlega óskiljanleg ráðstöfun eftir það sem á undan er gengið í átökum ríkisvaldsins við núverandi borgaryfirvöld um Reykjavíkurflugvöll og með hliðsjón af stöðunni sem uppi er í þeirri deilu.

 

Comments

comments