Greinin birtist á viðskiptavef mbl.is 30. nóvember 2015

Verkalýðsforkólfurinn öflugi, Vilhjálmur Birgisson, varpar nettri bombu inn í umræðuna um kjaradeiluna hjá Rio Tinto Alcan í Straumsvík í nýlegum pistli sínum á Facebook. Hann fullyrðir að deilan snúist alls ekki um launamál eða verktöku. Vandamálið sé að Landsvirkjun sé að slátra mjólkurkúnni sinni, álverinu, með því að bjóða ekki samkeppnishæft orkuverð. Vilhjálmur bendir á að raforka til álframleiðslu sé nú 30% dýrari hjá Rio Tinto Alcan í Straumsvík en hjá Rio Tinto Alcan í Kanada þar sem Hydro Québec hefur lækkað orkuverðið og tengt við heimsmarkaðsverð á áli. Það sé því miklu hagkvæmari kostur fyrir Rio Tinton Alcan að reka álver í Kanada en á Íslandi eins og staðan er í dag. Þetta er í takti við málflutning þann sem ég hef haft frammi hér í pistlum mínum á mbl.is. Þar vill ég sérstaklega benda á pistil minn dags. 30. október síðastliðinn sem bar nafnið „Verður Straumsvík lokað“.

Sé greining okkar Vilhjálms rétt, ættu verkalýðsforingjarnir í Straumsvík að drífa sig upp úr hefðbundnum skotgröfum. Þeir ættu helst að beina gagnrýni sinni að eigenda Landsvirkjunar, ríkinu, en ekki eigendum Rio Tinton Alcan eins og þeir hafa hingað til gert, hvað þá að uppnefna þá „alþjóðlegan auðhring sem svífist einskis“. Fulltrúar starfsmanna hafa furðað sig á framferði fulltrúa álversins í kjaraviðræðunum og hafa jafnvel haft á orði að þeir hafi engan áhuga á að ná samningum. Það getur verið hárrétt og að Rio Tinton Alcan vilji helst loka verksmiðjunni sem fyrst til að koma sér undan enn meira tapi en þegar er orðið af rekstrinum vegna ósamkeppnishæfs orkuverðs.

Nokkuð er síðan að ljóst var að samningur Rio Tinto Alcan við Landsvirkjun væri ekki samkeppnishæfur. Hydro Québec í Kanada hefur verið að endurnýja hvern samninginn á fætur öðrum við þau álver sem starfa í Kanada og verð þessara samninga hefur undantekningalaust verið tengt við heimsmarkaðsverð á áli sem gefur svigrúm til hækkana ef aðstæður á álmörkuðum batna til hins betra. Nákvæmlega samskonar þróun er í gangi í Noregi, verið er að semja við álframleiðendur um lægra orkuverð.

Að öllu óbreyttu stefnir í verkfall 2. des. sem þýðir að slökkva þarf á kerunum í álverinu. Líklegt er talið að álverið geti beitt fyrir sig svokölluðu „Force majeure“ ákvæði vegna verkfallsins sem þýðir að ekki verður um áframhaldandi kaupskyldu á raforku frá Landsvirkjun að ræða. Sumir halda því jafnvel fram að það verði endalok verksmiðjunnar og að henni verði lokað alfarið í kjölfarið. Fari svo, er um að ræða mikið tjón fyrir starfsmenn verksmiðjunnar, Hafnarfjarðarbæ, þjóðarbúið og ekki síst fyrir Landsvirkun sem verður af fjórðungi sinnar raforkusölu á einu bretti.

Það hefur alloft gerst, þegar almennir kjarasamningar í landinu ganga treglega, að ríkið komi inn með sértækar aðgerðir til að liðka fyrir samningum. Þannig heldur fjármálaráðherra á lausnarlyklinum í þessari deilu. Rafmagn á Íslandi getur ekki og má ekki vera einhverskonar fasti. Heldur þarf verð þess að endurspegla það alþjóðlega samkeppnisumhverfi sem orkusala til stóriðju er hverju sinni. Ljóst er að Landsvirkjun hefur verðlagt sig útaf markaðnum og stjórnendur þar á bæ virðast ekki átta sig á alvarleika málsins, eða mögulega er þeim bara alveg sama. Það eru jú aðrir sem bera kostnaðinn af tómlætinu og þá er svo auðvelt að standa á prinsippum.  Stjórnvöld verða hér að grípa inní þessa deilu áður en í óefni er komið. Á því munu allir hagnast, en tími til aðgerða er á þrotum.

Comments

comments