Greinin birtist á viðskiptavef mbl.is 30. nóvember 2015

Flestir eru sammála um að takmarka þurfi stærð fyrirtækja á markaði. Víða er samkeppnislögum beitt af mikilli hörku til að tryggja heilbrigða samkeppni og koma í veg fyrir að fyrirtæki komist í einokunarstöðu í krafti stærðar. Markmiðið er að vernda hagsmuni neytenda og smærri fyrirtækja.

Þeim mun undarlegra er að fylgjast með uppvöðslusemi stærsta orkufyrirtækis landsins, Landsvirkjunar, sem hagar sér eins og ríki í ríkinu án afskipta yfirvalda. Miklar og órökstuddar verðhækkanir Landsvirkjunar undanfarið eru dæmi um það. Í heilbrigðu samkeppnisumhverfi geta fyrirtæki verðlagt sig út af markaðnum en Landsvirkjun virðist snúa dæminu á hvolf, þegar henni hentar, og nýtir yfirburðastöðu sína til verðleggja viðskiptavini sína út af markaðnum. Nýjasta dæmið er yfirvofandi lokun álversins í Straumsvík vegna ósamkeppnishæfs orkuverðs frá Landsvirkun. Þar stefnir í stórfelldan atvinnu- og tekjumissi fyrir starfsfólk, verktaka, svo ekki sé minnst á tap þjóðarbúsins í heild.

Einokunartilburðir
Stærð Landsvirkjunar á markaði er yfirþyrmandi, alveg sama hvaða mælikvörðum er beitt. Fyrirtækið á til dæmis svo til allar vatnsaflsvirkjanir á landinu og við blasa mörg einkenni þeirrar einokunarhugsunar sem flestir vilja forðast. Þá sætir undrun að forstjóri fyrirtækisins skuli telja það í sínum verkahring, en ekki stjórnvalda, að móta orkunýtingarstefnu Íslands til framtíðar. Nýleg dæmi sýna að fyrirtækið telur sig ekki einu sinni þurfa að sinna upplýsingagjöf til Alþingis. Að ríkisfyrirtæki í markaðsráðandi stöðu á fákeppnismarkaði skuli verja tugum ef ekki hundruðum milljóna króna á ári í markaðs- og kynningarmál, opinberar einbeittan vilja til að stýra umræðunni um fyrirtækið. A.m.k. er öllu þessu fé ekki varið til að auka markaðshlutdeild þar sem hún verður vart stærri.

Óvirk raforkulög
Markaðsráðandi staða Landsvirkjunar á raforkumarkaði er um margt afar óhagkvæm fyrir þjóðarbúið. Samkeppni er engin og enginn virðist vita hvort Landsvirkjun sé vel eða illa rekin, enda er ekkert fyrirtæki til að bera rekstur þess saman við. Lítið virðist fara fyrir kostnaðaraðhaldi. Sérstaka athygli vekur að á tímum strangs aðhalds með ríkisstofnunum hafi starfsmönnum Landsvirkjunar fjölgað um 40% á síðastliðnum fimm árum. Ekki verður séð að verkefnastaða fyrirtækisins útskýri þessa fjölgun nema síður sé. Um 27 milljarða króna eignfærsla á undirbúningskostnaði í síðasta ársreikningi er einnig rannsóknarefni í þessu ljósi.

Raforkulögin voru sett hér á sínum tíma með það að markmiði að koma á samkeppnismarkaði í orkumálum í samræmi við orkumálatilskipun ESB. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir. Þróunin undanfarin ár hefur verið í þveröfuga átt, þ.e. sú að Landsvirkjun hefur aukið framleiðsluhlut sinn og fyrirferð á markaði. Eðlilegt er því að spyrja hvernig skerpa megi á samkeppninni á íslenska raforkumarkaðnum til hagsbóta fyrir neytendur og þjóðarbúið í heild.

Áhugaverð lausn
Möguleg leið til úrbóta væri að skipta Landsvirkjun upp í tvö eða fleiri aðskilin fyrirtæki sem væru þá í samkeppni hvert við annað. Hér mætti til dæmis hugsa sér að skipta Landsvirkjun í tvennt og staðsetja annað fyrirtækið á Suðurlandi en hitt á Norðurlandi. Með uppskiptingu Landsvirkjunar stæðu eftir minni og gegnsærri rekstrareiningar. Samanburður á rekstri þessara fyrirtækja yrði auðveldur og ný tilhögun myndi ýta undir hagkvæmari rekstur öllum til ávinnings. Fyrir utan byggðasjónarmið blasir einnig við sá augljósi kostur fyrir stjórnendur og starfsfólk Landsvirkjunar að vera nær starfsstöðvum sínum, virkjununum. Loks er vert að minna á að Landsnet er enn undir hælnum á Landsvirkjun og löngu orðið tímabært að skilja alveg á milli þessara tveggja fyrirtækja.

 

Comments

comments