Mikið ofboðslega leiðist mér þetta ameríska viðhorf, að byssur auki öryggi manna, þegar öll statistik segir annað. Það er löngu búið að afsanna þetta og þarf ekki annað en að skoða tölur frá Bandaríkjunum til að sjá það. Byssa verndar hvorki þann sem heldur á henni né fórnarlamb hans. Ég ætla að segja þetta aftur því þetta er svo mikilvægt: Byssa verndar hvorki þann sem heldur á henni né fórnarlamb hans. Íslenska lögreglan er nú þegar búin að drepa einn og það er mín skoðuni að sá hefði ekki dáið nema fyrir byssugleði lögreglumanna. Lesið skýrsluna ef þið trúið mér ekki.
En svo segir þessi Eyþór: „Íslenska lögreglan er ekki að vopnast. Þetta er bara spurning um aðgengi“. Jæja vinur, þú mátt kalla það það sem þú vilt en ég held að þú mundir kalla það vopnaburð ef ég héldi allt í einu á byssu, þótt ég sjálfur kallaði það bara „aukið aðgengi“. Auðvitað er verið að vopna lögregluna – ekkert annað. Við erum ekki eins vitlaus og þið……
…haldið.
Dæmið sem Eyþór tekur um ímyndaða skotárás í Kringlunni er afar óheppilegt því ég held að skammbyssa í höndum óbreytts lögregluþjóns geri einmitt lítið gagn ef „manneskja með átta haglabyssur byrjar að skjóta í Kringlunni“, eins og hann segir. Það væri verkefni fyrir Víkingasveitina og það er allt annað mál. Hún er löngu orðin fullvopnuð og verður það áfram, enda snýst umræðan ekki um vopnaburð Víkingasveitarinar. Það er vægast sagt afar ólíklegt að svona atvik geti komið upp, en miklu líklegra er að upp komi tilvik eins og í Árbænum þar sem vopnaburður lögreglunnar olli mikilli histeríu en svo kom í ljós að fórnarlambið hafði ekki hleypt af einu einasta skoti fyrr en lögreglumennirnir voru búnir að skjóta 36 táragashylkjum inn í íbúðina hans og brutu svo upp hurðina. Þá fyrst skaut fórnarlambið sínu fyrsta skoti. Ég ætla ekki að minnast neitt á Hlíðarhjalla-atvikið þar sem eina hættan sem borgararnir stóðu frammi fyrir stafaði af vopnuðum lögreglumönnum og græjunum þeirra.
En svo er eitt. Ég er „virkur í athugasemdum“ og vil ekki hafa það að þessi frasi sé notaður eins og skammaryrði um fólk sem hefur skoðanir. Auðvitað vilja þau yfirvöld sem lögreglan er að vernda að sem flestir hugsi ekki og þess vegna er verið að reyna að þagga niður í fólki með skoðanir á þjóðfélaginu með því að búa til skammarorð úr þessum frasa, en ég er „virkur í athugasemdum“ og ætla að vera það áfram og er stoltur af því. Það þarf byssu til að hindra mig í að segja skoðanir mínar.
Eyþór segir að maður stoppi ekki „brjálaða manneskju“ með kylfu og piparúða, og kennski er eitthvað til í því þótt ég þekki persónulega lögreglumenn af gamla skólanum sem þurftu hvorugt af þessu til að stoppa svoleiðis fólk. En svoleiðis er víst ekki lengur í tísku hjá lögreglunni. Nú eru bara gefnar einfaldar skipanir og svo eiga menn bara að „hlýða fyrirmælum lögreglu“, annars verða þeir skotnir. Amerískara verður það varla. Skoðið grafíkina sem fylgir fréttinni.
Já, „maður mætir byssu með byssu“ sagði svo sérfræðingurinn í lokin, og það er einmitt það sem ég óttast. Þetta er líklega einmitt það sem glæpamennirnir eru að hugsa núna.

Comments

comments