Wendelstein 7-x verður samkvæmt áætlun gangsett núna í desember, og munu þá hefjast tilraunir með helíumrafgas.

Tilraunir með kjarnasamrunavélina Wendelstein 7-x eiga að hefjast í desember þessa árs.

Vélin var níu ár í smíðum, og verkfræðingar störfuðu við bygginguna í meira en milljón klukkustundir, að sögn fréttar frá Max Planck Institute í Þýskalandi.

Tæknilegar breytur maskínunnar hafa verið prófaðar hver á fætur annarri, og nú situr aðeins eftir að kveikja endanlega á henni og framkalla í henni helíumrafgas.

Það er þó aðeins enn ein tilraunin, en raunverulegt markmið vélarinnar er að geta framkallað kjarnasamruna í lofttegundinni vetni, sem er það sama og knýr sólina áfram.

Kveikja á lítilli sól í Þýskalandi

Markmið samrunarannsóknarinnar er að þróa kjarnavirkjun sem dregur orku úr kjarnasamruna frumeinda, rétt eins og sólin og aðrar stjörnur gera.

Samrunaeldur kviknar aðeins við hitastig yfir 100 milljón gráður á selsíus. Því þarf að gera ráðstafanir fyrir að eldsneytið, vetnisrafgas, komist ekki í snertingu við veggi vélarinnar.

Notast er við segulsvið til að halda rafgasinu svífandi í lottæmdum klefa meðan frumeindirnar renna saman og gefa af sér gífurlegt magn orku.

Mikilvæg orkulind fyrir hlýnandi hnött

Ef rétt er farið að kjarnasamruna hefur hann lítil sem engin loftslags- og umhverfisáhrif.

Hann er því ákjósanlegt svar við erfiðu spurningunni um hvernig hægt sé að svara síaukinni orkuþörf 7 milljarða manna án þess að gera endanlega út af við lífkerfi jarðar.

Eins og stendur funda leiðtogar tuga ríkja á COP21 í París þar sem ræddar eru aðferðir til að draga úr kolefnislosun víðsvegar um heiminn. Meðal þeirra sem sækja samkunduna eru Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.

Comments

comments