Kjartan Garðarsson vélaverkfræðingur

Kjartan Garðarsson
vélaverkfræðingur

Mikil og hröð þróun á sér nú stað víða um heim með nýja orkukosti. Skemmst er að minnast myndarlegs (billjóna) sjóðs sem Bill Gates stofnandi Microsoft kynnti á loftslagsráðstefnunni í París. Þessi sjóður á að standa við bakið á nýsköpun í orkumálum heimsins. Veggurinn leitaði til Kjartans Garðarssonar eins fremsta sérfræðings þjóðarinnar í framþróun orkumála og bað hann að spá í spilin.

Nýir orkukostir skjóta nú upp kollinum og sérstaklega er rétt að gefa tveimur þeirra gaum. Báðir þessir orkukostir eru hannaðir þannig að raunveruleg fjöldaframleiðsla á orkugjöfum er vel möguleg.

Sagt er að Mark Twain hafi sagt á sínum tíma

Framtíðin er ekki það sem hún er vön að vera

þessi fullyrðing á vel við í dag. Framtíðin í orkumálum er eins og fljótandi kvika þessa dagana. Ný þróun með kjarnorku. Þessi tækni er mun ódýrari í rekstri og öruggari en eldri gerðir. Þessir fjórðu kynslóðar kjarnakljúfar geta líka nýtt úrganginn frá eldri kjarnorkuverum og gert hann hættuminni, auk þess sem þeir vinna orku, sem er samkeppnishæf verðlega við kolaorkuver sem hingað til hafa verið einn ódýrasti orkukostur sem í boði er. Þessi tækni er þegar komin á markað og undirbúningur á fjöldaframleiðslu er hafin.

ColdFusionÞað sem þó er enn meira spennandi er það sem nefnt er kaldur samruni og byggir á samruna vetnisatóma. Þó fyrirbrigðið hafi enn ekki verið skýrt til hlítar, þá hefur tæknin verið staðfest með tilraunum og undirbúningur á markaðsfærslunni í kringum fjöldaframleiðslu er komin vel á veg. Hér er um að ræða kolefnisfría og tiltölulega hættulausa tækni. Tækni sem er mikið ódýrari til orkuvinnslu en allt sem við höfum áður þekkt, bæði frá kjarnorku og steingerðu eldsneyti.

Þessi nýja tækni getur komið í stað alls brennandi eldsneytis, bæði þar sem hiti er nýttur eða raforkuvinnsla á sér stað. Margt bendir til þess að framleiðslutækni til fjöldaframleiðslu á tækjum sem framkalla kaldan samruna verði komin á markað innan árs. Þessi nýja tækni notar ekkert eldsneyti, aðeins umhverfisorku. Í kjölfarið munu þróast nýjar leiðir, nýir aflgjafar sem kollvarpa öllum okkar hugmyndum og framtíð varðandi orkumál. Engin þörf verður fyrir raforkunet eða þá orku-innviði sem við þekkjum í dag. Ekki frekar en fyrir lagningu koparvírs til þess að ná símasambandi. Engar línulagnir vítt og breitt um land.

Sveinn Ólafsson rannsóknarprófessor

Sveinn Ólafsson rannsóknarprófessor

Orkan verður fáanleg í fyrirferðalitlum einingum sem hægt er að setja niður við hlið þess sem orkuna ætlar að nýta.  Samhliða þessari byltingu í orkuframleiðslu verður þörf fyrir mikla nýsköpun og þróunarvinnu sem mun umbylta hugmyndum okkar varðandi orkuvinnslu og orkunotkun.

Einn af þeim aðilum sem leiðir þessa þróun á heimsvísu er vísindamaður og rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands sem heitir Sveinn Ólafsson. Hann ásamt samstarfsaðilum sínum í Svíþjóð hafa verið í fararbroddi þeirra sem eru að ná tökum á þessum grunnvísindum.

Ég held að flestir séu sammála um það að heimurinn allur, þarf nýja og hreina orkugjafa og helst strax. Þessu kalli eru Evrópubúar, Kínverjar og Norður Ameríku menn þegar að reyna að svara. Svara með því að setja fram þessa nýju orkukosti í fjöldaframleiddum ódýrum einingum. Gangi þessar fyrirætlanir eftir er ljóst að útbreiðsla á þessum nýju orkukostum verður mun hraðari en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Það gæti því vel gerst að innan 15 til 25 ára verði nær allir kolefnisorkugjafar horfnir.

 

Comments

comments