Styrmir Gunnarsson

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, ritar grein í Morgunblaðið s.l. laugardag 25. febrúar  um það sem hann kallar „hina nýju stétt“ á Íslandi. Höfðar hann þar til þekktrar bókar eftir Milovan Djilas sem út kom fyrir mörgum áratugum. Telur Styrmir að elíta nútímans á Vesturlöndum sé í grundvallaratriðum sama fyrirbærið og þar var lýst. Einhvers konar yfirstétt ráði í reynd öllu, skari eld að eigin köku á kostnað almúgans og stjórni í reynd þeim málefnum samfélagsins sem hún vill stjórna. Almenningur skynji þetta og sé hér að finna eina af skýringunum á framgangi Trumps í Bandaríkjunum og Le Pen í Frakklandi.

Greinarhöfundur spyr hvernig þessi nýja stétt birtist hér í okkar fámenna samfélagi og svarar sjálfur:

„Í stærstu dráttum má segja að hér hafi orðið til bandalag stjórnmálamanna, embættismanna og sérfræðinga af ýmsu tagi. Með örfáum undantekningum hafa kjörnir fulltrúar fólksins á Íslandi aldrei litið á sig sem fulltrúa almúgans gagnvart „kerfinu“. Þeir hafa þvert á móti gengið því á hönd.“

Veggurinn tekur undir þessi orð ritstjórans fyrrverandi og bendir á framgöngu Guðmundur Árnasonar ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu gagnvart Haraldi Benediktssyni sem í kjölfarið leitaði til umboðsmanns Alþingis eftir leiðbeiningum vegna alvarleika símtals sem Haraldur fékk frá ráðuneytisstjóranum. Þetta gerðist í kjölfar útgáfu skýrslu um einkavæðingu bankanna hinna síðari. Þarna voru skilaboð ráðuneytisstjórans skýr. þeim þingmönnum sem tóku þátt í afgreiðslu skýrslunnar var hótað að þeir skyldu þola æru- og eignamissi. Ráðherrann yfirmaður embættismannsins sá ekki ástæðu til þess að áminna ráðuneytisstjórann sinn. Spurning er hvort hann hafi gengið þessu bandalagi á hönd.

Framgang Trump og Le Pen má eflaust að hluta skýra með þessu. Rétt er líka að benda á framgang Jóns Gnarr  og Besta flokksins árið 2010 í borgarstjórnarkosningum og síðan framgöngu Sigmundar Davíðs og Framsóknar 2013. Bæði þessi íslensku dæmi spretta úr sama grunni fólks sem telur að kerfið hafi snúist gegn sér. Hér skiptir ekki máli hægri og vinstri heldur er komin hér fram ný átaka lína. Kerfið annarsvegar og fólkið hinsvegar.

 

 

 

Comments

comments