Mynd frá gagnaveri Advania

Mynd frá gagnaveri Advania

Veggurinn hefur fyrir því heimildir að nokkur erlend fyrirtæki hafi af fullri alvöru skoðað möguleika á því að reisa gagnaver á Íslandi. En hætt við eftir hagkvæmniathuganir á verkefninu. Þar koma til nokkur atriði.

Í fyrsta lagi er fjarlægð til Íslands þó nokkur og skiptir þar nokkrum millisekúndum þegar gögn eru send um langan veg. Á tæknimáli upp á enska tungu er þetta kallað latency eða flutningstafir. Það tekur merkið aðeins lengri tíma að fara um sæstreng til Íslands heldur en milli landa á meginlandinu vegna vegalengda. Fjarlægð okkar frá miðstöð viðskipta í heiminum skiptir hér meginmáli.

Í öðru lagi er gjaldtaka rekstraraðila gagna-sæstrengjanna á Íslandi mjög há í öllum alþjóðlegum samanburði. Ljóst er að ríkið hefur þurft í áraraðir að greiða með þessari starfsemi og tap af henni hefur verið mikið.  Ríkissjóður er í verulegri áhættu vegna þeirra ríkisábyrgða sem veittar voru í þetta verkefni. Verðið fælir viðskiptavini frá en með auknum viðskiptum gætu þessir aðilar stuðlað að betri nýtingu sem að sama skapi eykur tekjur á móti stöðugu tapi. Auk þessa mundi betri nýting minnka áhættu ríkissjóðs af þessu verkefni sem er umtalsverð. Verðlagning í gegnum strenginn er því þröskuldur.

Í þriðja lagi er raforkuverð á Íslandi ekki samkeppnisfært við það sem boðið er t.d. bæði í Noregi og í Kanada. Svokallað viðmiðunarverð til stórnotenda sem Landsvirkjun gefur út og birtir á vef sínum er til að mynda u.þ.b. helmingi hærra en raforkuverð samkeppnislanda. Raforka á Íslandi er því ekki á samkeppnisfæru verði sem stendur.

Í fjórða lagi benda átök og upplausn síðustu vikna til þess að í landinu sé svokallaður pólitískur óstöðugleiki.  Miklar sveiflur virðast vera á fylgi stjórnmálaflokka og alger óvissa ríkir með hvaða stjórnvöld taka hér við eftir kosningar og eða hvaða stefnu komandi stjórnvöld hafa varðandi erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Undir þessum kringumstæðum eru litlar líkur á því að erlendir aðilar byggi hér gagnaver eða nokkuð annað.

Comments

comments