Geir Hólmarsson ritar á facebook:

Veit ekki af hverju en ég er að lesa Hvítbókina hans Illuga Gunnars ráðherra okkar.

Í Hvítbók menntamálaráðherra segir að bókinni sé ætlað að vera grundvöllur frekari umræðna og samráðs við alla þá sem hag hafa af menntun. Í bókinni er farið um það mörgum orðum hversu reynsla annarra sé dýrmæt og mikilvægt að líta til þess sem vel hefur heppnast hjá öðrum þjóðum. Eitt meginatriðið mun vera að gera ekki of stórar og umfangsmiklar breytingar í einu. Ha? Erum við ekki að umbylta öllu skólakerfinu í grundvallaratriðum í einni stórri aðgerð? Hvernig getur það þá verið skoðun ráðherrans að það sé leiðin sem ekki á að fara. Reynsla annarra þjóða hafi sýnt að það sé feigðarflan?

Þá segir ráðherra í bók sinni að alþjóðleg reynsla af umbótum hefur sýnt fram á hversu mikilvægt sé að byggja á mælanlegum staðreyndum en „…varast um of að leggja of mikla áherslu á mælingar svo þær fari ekki að ráða för…“ Ha? Í námskrá grunnskóla er gert ráð fyrir tæplega eittþúsund og eitthundrað mælipunktum á hæfni nemenda. Jamm, ég lagði það á mig að telja það. Mælingar eru gerðar við lok fjórða, sjöunda og tíunda bekk. Þetta er fyrir utan hin hefðbundnu þekkingarpróf sem nemendur þreyta.

Þá segir ráðherra: „Til þess að ná fram breytingum þarf þekkingu og hæfni, fjármagn og stuðning og einnig staðfastan vilja. Til þess að umbætur náist fram í hverjum skóla þarf getan til slíkra breytinga að vera fyrir hendi innan þeirra. Hana getur þurft að byggja upp samhliða undirbúningi að hinum eiginlegum markmiðum.“ Ha? Ráðherra er að skera niður fjármagn til skólanna samhliða því að hann innleiðir umfangsmestu breytingar á skólakerfi íslendinga frá því að það var reist. Kennarar eru látnir vinna að innleiðingunni á hlaupum í fullu starfi við það að vera kennarar. Undirbúningur er lítill, skilningur á því hvað fer fram jafnvel minni. Þetta er eins og að biðja maraþonhlaupara að taka með sér prjónana í hlaupið og skila af sér prjónaðri peysu við endamarkið.

Og ég er bara á fyrstu blaðsíðunum.

Comments

comments