Haestirettur og GudfinnaUm fátt hefur verið rætt eins mikið síðustu daga og flugvallarmálið sem hefur tekið á sig hinar furðulegustu myndir. Lykilgagn í þessu máli öllu er dómur hæstaréttar í máli Reykjavíkurborgar gegn ríkinu og það hvernig hann er túlkaður.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina sem jafnframt er einn reynslumesti lögmaður landsins á sviði fasteignamála hefur rýnt þennan dóm og dregið fram niðurstöður úr honum.

Helsta niðurstað Guðfinnu er að dómurinn sé oftúlkaður af borgarstjóra, ráðuneytunum og ráðherrum sem töldu skylt að ganga frá afsali á landi ríkisins í kjölfar dómsins. Hér er um alveg nýtt sjónarhorn að ræða og ljóst að gjörningurinn allur er byggður á lagaskilningi sem ekki stenst skoðun ef lögskýringar Guðfinnu eru réttar.

Hér fyrir neðan er samantekt Guðfinnu birt í heilu lagi.

Oftúlkaður Hæstaréttardómur

Í dómsmálinu um lokun neyðarbrautarinnar var ekki gerð krafa um það að ríkið myndi standa við samkomulagið um söluna á landinu í Skerjafirði sem fulltrúar Samfylkingarinnar gerðu f.h. Reykjavíkurborgar og ríkisins 1. mars 2013, þ.e. Dagur B. Eggertsson og Katrín Júlíusdóttir, þó svo vikið sé að samkomulaginu í dómnum þegar fjallað er um valdmörk innanríkisráðherra.

Dómsmálið snérist um samning Hönnu Birnu og Jóns Gnarr frá 25. október 2013 um lokun neyðarbrautarinnar en ekki um að það að ríkið ætti að standa við samkomulagið um söluna frá 1. mars 2013.

Í dómi Hæstaréttar er vikið að áformaðri sölu landsins í Skerjafirði og gerð samkomulagsins frá 1. mars 2013 milli Samfylkingarfólksins og bent á að efni til hafi falist í þessu samkomulagi skuldbinding um að aðilar myndu á síðari stigum gera kaupsamning og afsal. Tekur Hæstiréttur það fram að áformuð sala heyri ekki undir innanríkisráðuneytið en hafi verið heimiluð af Alþingi í fjárlögum 2013.

Hæstiréttur tekur það skýrt fram að þetta samkomulag frá 1. mars 2013 sé ekki kaupsamningur um fasteign samkvæmt 7. gr. fasteignakaupalaga og þ.a.l. séu þær skyldur sem aðilar gengust undir með samkomulaginu ekki fallnar niður samkvæmt 8. gr. fasteignakaupalaga. Í 7. gr. fasteignakaupalaga er fjallað um þau formsatriði sem samningur þarf að uppfylla til að teljast kaupsamningur og í 8. gr. fasteignakaupalaga er fjallað um það þegar skuldbindingargildi kaupsamnings er bundið fyrirvara um atvik sem ekki hefur gengið eftir þá skuli kaupsamningur falla niður að liðnum tveimur mánuðum frá því að hann komst á. Með öðrum orðum að þar sem samkomulagið frá 1. mars 2013 uppfyllir ekki þau skilyrði fasteignakaupalaga að teljast kaupsamningur getur fyrirvari sem á við um kaupsamninga í skilningi þeirra laga ekki verið fallinn niður því ákvæði fasteignakaupalaganna um kaupsamninga og fyrirvara um skuldbindingargildi þeirra á ekki við um þetta samkomulag frá 1. mars 2013.

Hæstiréttur er því ekki að segja að það hafi verið nóg að heimila söluna í fjárlögum 2013 og þar með sé hægt að víkja frá 40. gr. stjórnarskrárinnar eða að það hafi ekki verið hægt að fella heimildin niður í fjárlögum 2014 eins og gert var. Hæstiréttur er heldur ekki að segja að ríkið eigi að standa við samkomulagið heldur eingöngu að þetta samkomulag frá 1. mars 2013 sé ekki kaupsamningur í skilningi fasteignakaupalaga og því getur fyrirvari á grundvelli laga sem ekki eiga við ekki verið fallinn niður.

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Comments

comments