„Ég held að kominn sé tími til, að almenningur átti sig á að langstærsti hluti fjármálaviðskipta í heiminum fer á einn eða annan hátt fram í gegn um skattaskjól eða með afurðir sem skráðar eru í skattaskjólum. Margar af stærstu fjármálamiðstöðvum í heimi eru þar sem búið er að laga til lagaumhverfi, svo sem minnstar hömlur séu á starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálagjörningum. Eftirlitsleysi er stór þáttur í þessu, enda er það svo að líklegast 95% allra fjármálagjörninga, sem átt er í viðskiptum með, eru án eftirlits fjármálaeftirlita í heiminum. Er ég þá að tala um hin gríðarlegu viðskipti með afleiður.

Ég þori að fullyrða, að ALLIR helstu verðbréfasjóðir, sem verslað er með á stærstu mörkuðum, eru skráðir í hagstæðu skatta- og lagaumhverfi. Í Bandaríkjunum er það Delaware, á Bretlandseyjum er að City of London, á meginlandi Evrópu eru það Lúxemborg, Holland og Sviss, í Asíu er það Hong Kong. Frá þessum stöðum er síðan búin til tenging við Bermúda, Bresku jómfrúreyja, Ermasundseyjanna og hvað þeir heita nú allir þessir staðir í heiminum, sem fjámálafyrirtæki og alþjóðleg stórfyrirtæki eru búin að kaupa löggjafa til að breyta lögum, þannig að þau séu þeim hagstæð.

Af þessum sökum er mjög mikilvægt að gera greinarmun á því að fjárfest sé í sjóði sem skráður er í vafasamri lögsögu og að EIGA félag í vafasamri lögsögu. Ég efast t.d. stórlega um að sá sem kaupir hlutabréf í mörgum stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna, átti sig á því, að þau eru skráð í Delaware, sem er allt annað en vant að virðingu sinni, þegar kemur að fyrirtækjalöggjöf og löggjöf um fjármálageirann. Engum dettur þó í hug að neikvætt sé að eiga hlutabréf í Apple eða HP, svo dæmi séu tekin.

Svo ég vitni að lokum í Nicholas Shaxon, höfund bókarinnar Treasure Islands:
„Capital no longer flows to where it gets the best return, but to where it can secure the best tax subsidies, the deepest secrecy, and to where it can best evade the laws, rules and regulations it does not like. None of these attractions has anything to do with allocation capital more efficiently.“

Þetta er ekkert nýtt, því John Meynard Keynes hafði spáð þessu þegar á 4. áratug síðustu aldar og það eina sem breyst hefur síðan er umfangið og skilvirknin. Vandlæting nokkurra eða nokkur hundruð þúsunda Íslendinga á kerfinu mun ekki breyta því. Sættum okkur við þá staðreynd að fjármálaheimurinn er rotinn!“

Comments

comments