Við Landspítalann við Hringbraut er bílastæðavandamál. Sjúklingar komast ekki að á eigin bifreiðum til að sækja þjónustu sem veitt er á dagdeildum, göngudeildum, rannsóknardeildum og öllum þessum deildum sem búið er að koma þannig fyrir að sjúklingar þurfa að greiða fyrir heimsóknina í staðinn fyrir að samtryggingin sjái um það. Hvað um það. Fæstir þeirra sem sækja ofangreinda þjónustu koma gangandi, hjólandi eða í strætó. Einhverjir koma með Ferðaþjónustu fatlaðra, einhverjir eiga velviljaða ættingja eða vini sem skutla þeim, einhverjir splæsa í leigubíl en flestir koma á eigin bíl til að sækja þessa þjónustu. Við spítalann eru bílastæði sem þarf að borga í (eins og það sé ekki nóg að borga fyrir því í sambandi við þann sjúkdóm sem viðkomandi er að sækja þjónustu við) og sá sem leggur í stæði og borgar ekki fær sekt. Sá sem leggur en notar ekki merkt stæði vegna þess að stæðin eru full fær klárlega sekt. Ég spyr því einfaldlega, hvers vegna höfum við ekki komið upp ferðaþjónustu fyrir fólk sem þarf að sækja þessa þjónustu eða gefum út bílastæðamiða þannig að fólkið þurfi ekki líka að greiða fyrir stæðin? Best væri að gera hvorutveggja. Haldið þið að ríkissjóður og borgarsjóður færu á hausinn við slíkar aðgerðir?

Comments

comments