Ingvar Tryggvason

Visir bendir á í frétt í dag að það hefði getað skapast háskalegt ástand ef óhapp það sem þota Primera varð fyrir hefði gerst milli þrjú og fjögur um daginn. Þetta er haft er eftir Ingvari Tryggvasyni, flugstjóra og formanni Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, um óhappið sem varð er farþegaþota Primera Air fór út af braut í lendingu á Keflavíkurflugvelli klukkan rúmlega fimm á föstudaginn síðastliðinn. Nokkur skelfing varð meðal farþega og margir þeirra upplifðu þetta atvik sem alvarlegt. Flug Primera air, flug 6F108 frá Alicante til Keflavíkur 28. apríl, er til rannsóknar hjá RNSA. Flugvélin lenti utan brautar eftir erfiða lendingu, þar sem vélin rásaði og skautaði á brautinni. Í Bítinu á Bylgjunni í morgun var rætt við Kristján Berg sem er þekktur sem fiskikóngurinn. Hann lýsti upplifun sinni af atvikinu og þakkar fyrir að vera á lífi. Fjölmargir þjóðkunnir einstaklingar voru með vélinni, svo sem skemmtikrafturinn og þjóðargersemin Laddi, tónlistarmennirnir Hreimur og Vignir Snær svo einhverjir séu nefndir.

Njáll Trausti Friðbertsson

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og flugumferðarstjóri skrifar af þessu tilefni á Facebook vegg sinn:

„Á Íslandi er fjórir alþjóðaflugvellir sem alþjóðaflugvallakerfið landsins byggist á. Nú eru að verða liðin fjögur ár síðan Hjartað í Vatnsmýrinni var stofnað. Í þeirri baráttu hefur margoft verið bent á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar í þessu samhengi.

Ég hef líka bent á mikilvægi þess að stækka flughlöðin á Akureyrar- og Egilsstaðarflugvöll á undanförnum árum út frá sjónarmiðum sem m.a snúa að flugöryggismálum þjóðarinnar.“

Ingvar Tryggvason segir að hefði óhappið orðið á háannatíma hefði fjöldi véla þurft að hverfa til varaflugvalla. Þar sé um að tefla Reykjavík, Akureyri og Egilsstaði. Það hamli síðarnefndu völlunum tveimur að þar sé aðeins pláss fyrir fjórar þotur á hvorum stað. Ef Keflavíkurflugvöllur lokist til dæmis vegna snjókomu sé oft snjókoma í Reykjavík sömuleiðis.

Ljóst er að stækkun flughlaða á Akureyri og Egilsstöðum má ekki bíða. Hver ætlar að taka á því ábyrgð ef þessi staða kemur upp og ekki verður til lendingarstaður fyrir tugi flugvéla á leið til landsins. Hver er stefna ISAVIA  í þessum málum. Framganga þeirra í málefnum Reykjavíkurflugvallar bendir frekar í þá átt að þeir vilji loka þeim velli og setja flugöryggismál í uppnám.

Þarf í raun að verða slys á fólki til þess að þeir sem með málið fara geri sér grein fyrir alvarleika þessa máls?

 

Comments

comments