Mikið gæti æðsta forysta Alþýðusambands Íslands lært margt af íslenska landsliðinu í knattspyrnu. En leikmennirnir hafa sýnt okkur að þeir eru tilbúnir að sækja fram til sigurs og verjast af alefli þegar þess gerist þörf. Slíku er alls ekki til að dreifa þegar kemur að forystu ASÍ enda vinnur forystan leynt og ljóst að því að koma á nýju vinnumarkaðsmódeli, svokölluðu Salek samkomulagi. En Salek samkomulagið mun leiða til þess að samningsréttur launafólks verður fótum troðinn ef þeim tekst ætlunarverk sitt.

Ef við líkjum Salek samkomulaginu við knattspyrnuleik þá gengur það út á að búið er að ákveða fyrirfram að íslenskt launafólk mun ekki mega skora mark þegar kjarasamningur eru lausir. Það er búið á ákveða hver úrslitin verða fyrirfram!

Það má líkja Salek samkomulaginu við sjálfsmark aldarinnar ef það kemst á laggirnar, enda er frjáls samningsréttur launafólks hornstein stéttarfélagsbaráttunnar.

Já forysta ASÍ getur svo sannarlega lært af strákunum okkar en þess ber þó að geta að landsliðið hefur Gylfa Sig á meðan launafólk er með Gylfa Arinbjörns!

Ég bið allt launafólk að fylgjast vel með þeim myrkraverkum sem forysta ASÍ vinnur nú að og lýtur að því skerða frjálsan samningsrétt launafólks. Á þeirri forsendu verða félagsmenn ASÍ að standa saman eins og stuðningsmenn landsliðsins hafa gert við landsliðið og koma í veg fyrir að forysta ASÍ skori þetta sjálfsmark með skelfilegum afleiðingum fyrir launafólk!

Comments

comments