Eins og Veggurinn fjallaði um fyrir skemmstu þá er allt sem bendir til þess að Hagstofan hafi ekki tekið mið af innkomu Costco á íslenskan neytendamarkað þegar vísitalan var reiknuð út nýlega. Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi hefur látið sig málið varða. Hann telur gríðarlega mikilvægt að Hagstofan upplýsi almenning í þessu landi hvort það sé virkilega rétt að aðili sem kemur inn á íslenskan verslunarmarkað eins og Costco sé utan verðbólgumælinga. Eins og alkunna er hefur verðlag í Costco hefur verið í mörgum tilfellum mun lægra í mörgum vöruflokkum en í öðrum verslunum. En slíkt getur skipt íslensk heimili miklu máli því stór hluti af fjárskuldbindingum heimilanna tekur hækkunum samkvæmt hækkun neysluvísitölunnar. Vilhjálmur upplýsti á Facebook síðu sinni að hann hefði 20. júní síðastliðinn sent eftirfarandi spurningu á Hagstofuna.

„Mig langar að vita hvernig Hagstofan mun bregðast við komu Coctco á íslenskan markað en núna liggur fyrir að 43% landsmanna hafa farið og verslað í Costco samkvæmt fréttum. Það er ljóst á öllum fréttum að aðkoma Costco hefur haft gríðarleg áhrif á vöruverð á Íslandi. Því spyr ég: Eru vörur frá Costco komnar inní mælinguna á neysluvísitölunni ef ekki hvenær mun það gerast?“

Vilhjálmur fékk svar frá Hagstofunni þar sem fram kom að ekki væri hægt að svara hvaða einstaka fyrirtæki væru með í útakinu. Hagstofan sendi Vilhjálmi eftirfarandi svar.

„Sæll Vilhjálmur Ég er því miður ekki í aðstöðu til að svara þér beint þar sem ég get ekki tjáð mig um einstaka fyrirtæki í úrtaki. Hins vegar er það þannig að Hagstofa Íslands fylgist stöðugt með þróun mála á smásölumarkaði og skipuleggur verðmælingar með hliðsjón af þeirri þróun svo mælingar endurspegli þær markaðsaðstæður sem neytendur búa við. Þetta gildir óháð því hvort það opni nýjar búðir sem selja matvöru, fatnað eða aðra neysluvöru.“

Vilhjálmur var með réttu ekki sáttur með þessi svör Hagstofunar og sendi aftur línu þangað.

„Ég verð nú að viðurkenna að mér finnst það undarlegt ef Hagstofan getur ekki sagt hvort Costco sé með í mælingunni eða ekki á grundvelli þess að Hagstofan geti ekki tjáð sig um hvaða „einstaka fyrirtæki“ séu í úrtakinu. Af hverju segi ég þetta, jú vegna þess að í þættinum Ísland í dag frá 30. janúar 2012 sem Lóa Pind hafði umsjón með var sýnt hvernig vísitalan er mæld og ekki bara það heldur var farið í nokkrar verslanir þar sem verðkannanir áttu sér stað. En í þættinum var farið í Herragarðinn, Skór.is og Hagkaup og því spyr ég af hverju er ekki hægt að upplýsa hvort vörur frá Costco séu með í mælingunni eða ekki í ljósi þess að Hagstofan hefur nú þegar upplýst um nokkur fyrirtæki sem eru inni í mælingunni? „

Vilhjálmur bendir hér á augljósa staðreynd þar sem fjölmiðill fékk upplýsingar um einstök fyrirtæki sem Hagstofan notar sem viðmiðun. Allir neytendur kannast við þá staðreynd að smávægilegar hækkanir á bensíni og olíu í gegnum tíðina hafa haft hækkandi áhrif á húsnæðislán þjóðarinnar. Nú bregður svo við að smásali selur líter af bensíni 25 krónum lægra verði en samkeppnisaðilar og allar dælur fyrirtækisins ganga látlaust frá  morgni til kvölds. Smurolíur og dekk fást hjá sama aðila fyrir tugum prósenta lægra verð. Þá bregður svo við að Hagstofan ákveður að taka ekki tillit til þessa og í þokkabót neitar að gefa upp hvernig vísitalan er sett saman og hvaða vægi einstakir þættir hafa.

Alþekkt er hugtakið bjögun í mælingum á neysluvísitölunni. Vilhjálmur Birgisson sýndi fram á þetta í séráliti sínu í nefnd þeirri sem fjallaði um afnám verðtryggingar. Leiddi hann fram sterk rök fyrir því að hér væri umtalsverð ofmæling á vísitölunni. Engin óháður aðili hefur eftirlit með þessum mælingum Hagstofunnar. 1% ofmæling á neysluvísitölunni þýðir að 20 milljarðar eru ofteknir og færðir frá skuldum heimilanna yfir til fjármálafyrirtækja og því mikilvægt að óháð rannsókn fari fram á þessum þáttum er lúta að bjögun á neysluvísitölunni.

Réttast væri að samtök eins og Neytendasamtökin væru eftirlitsaðili með útreikningum Hagstofunnar og allar viðmiðanir væru gagnsæjar. Það eru jú neytendur sem súpa seiðið af þessari bjögun. Hér er upplagður vettvangur fyrir hugaða stjórnmálamenn að standa með neytendum þessa lands og krefjast þess að samsetning vísitölunnar sé opin og gagnsæ á hverjum tíma.

 

Comments

comments