Viðar Garðarsson skrifar:

Mikið er rætt þessa dagana um hvort kjósa skuli til Alþingis í haust eða ekki. Þeir sem tala fyrir styttingu á kjörtímabilinu, hafa, að því virðist engin haldbær rök fyrir því af hverju kjósa á í haust. Helstu rökin sem heyrast eru að það sé „búið að ákveða þetta“ og „of seint að hætta við“ Það verði að vera  hægt að taka mark á mönnum.

Þá hefur einnig verið nefnt að þegar „stjórnarsamstarfið var endurnýjað í vor“ hafi haustkosningar verið ákveðnar.
Þetta er misskilningur. Stjórnarsamstarfið var ekkert endurnýjað. Því lauk aldrei. Forsætisráðherrann lét af embætti. Nýr maður settist í stól hans, varaformaður sama stjórnarflokks. Ekki var gerður nýr stjórnarsáttmáli. Stjórnarsamstarfið er því hið sama og fór á stað eftir síðustu kosningar 2013. Við höfum oft áður séð stólaskipti ráðherra í fyrri ríkisstjórnum, hér er ekkert annað í gangi.  Flokkarnir voru ekki kallaðar saman til að samþykkja nýjan stjórnarsáttmála og endurnýjun stjórnarsamstarfsins?

Talsmenn haustkosninga hafa lagt inn í umræðuna, að upp hafi komið aðstæður sem bregðast hafi þurft við. Það var víst efnt til mótmælafunda. Ef mótmælafundir valda þingrofi og kosningum er eitthvað mjög mikið að í því stjórnskipulagi sem við höfum komið hér á.

Í ljósi þessarar umræðu er rétt að minna á það að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tapaði tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum og haldnir voru útifundir gegn henni án þess að boðað væri til kosninga. Í fyrri Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunni lýsti ríflega 93,2% þeirra sem atkvæði greiddu sig mótfallinn þeim samningi sem ríkisstjórn Jóhönnu vildi staðfesta.  Þeir sem mest hafa sig í frammi nú, voru hljóðir þá.

Að auki er ljóst að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafði ekki meirihluta á Alþingi í ríflega eitt ár. Það má m.a. merkja á því að hún hafði ekki stuðning til að koma helstu baráttumálum sínum í gegn. Undir þeim kringumstæðum datt þeim sem nú eru tilbúnir að tjá sig um haustkosningar aldrei í hug að boða til kosninga. Svo skilja menn og konur ekkert í því að traust til Alþingis sé takmarkað.

Ríkisstjórnin hefur traustan meirihluta og henni ber skylda til þess að klára þau mál sem hún boðaði í stjórnarsáttmála sínum. Haustkosningar ef af þeim verður, eru svik við kjósendur ríkisstjórnarflokkanna.

Grein þessi er innblásin af grein sem birtist á vefþjóðviljanum.

Comments

comments