samsett Sigm_ruvLeiðari Morgunblaðsins í morgun þriðjudaginn 5. apríl 2016 er fyrir margra hluta sakir nokkuð merkilegur. Þar dregur ritstjóri blaðsins upp raunsanna mynd af þeirri atburðarás sem RÚV hefur boðið þjóðinni uppá síðustu daga. Sérstaklega er framkoma Jóhannesar Kr. Kristjánssonar blaðamanns gangvart forsætisráðherra talin ámælisverð.

Í leiðaranum segir meðal annars:

„Í samtvinnuðum fréttatíma og Kastljósi í fyrradag var trompásnum spilað út með stæl og svo kom hver ásinn af öðrum. Þá var loks upplýst, að fyrir tæpum mánuði hafði sænskur fréttamaður með tilstyrk fyrrverandi starfsmanns „RÚV“, sem nú birtist sem verktaki hjá stofnuninni, kríað út með blekkingum viðtal við forsætisráðherrann. Menn báru sig að með nákvæmlega sama hætti og þegar reynt er að „skúbba“ fréttum um barnaníðinga og umfangsmikla dópsala. Meira að segja verktaki „RÚV“, sem aðspurður hafði sagst vera viðstaddur í hlutverki skriftu, breytti sér óvænt í spyrjanda við hlið þess sænska. Skyndilega rann upp fyrir forsætisráðherranum að hann var fórnarlamb ósvífins blekkingaleiks. Honum hafði í rauninni verið veitt fyrirsát og hann gengið í gildru.“

Þarna lýsir ritstjóri Morgunblaðsins því hvernig blaðamaðurinn sem um ræðir notaði sambærilega fyrirsát þegar hann fyrr á tímum var að eltast við perra, barnaníðinga og fíkniefnasala.  Í raun er þessi lýsing í leiðara Morgunblaðsins á framkomu blaðamannanna gangvart forsætisráðherra algerlega óboðleg og skiptir þá engu hvort í hlut eiga innlendir eða erlendir aðilar. Hér var um úthugsaða fyrirsát að ræða sem pródúseruð var í þeim pólitíska tilgangi að koma höggi á sitjandi ráðherra.

Það var merkilegt að hlusta á viðtal við þennan sama blaðamann í gær. Þar lýsti hann því yfir að það hefði verið hans mat, ásamt mati erlendu blaðamannanna að upplýsingarnar vörðuðu almanna hagsmuni. Þetta er mjög merkileg niðurstaða í því ljósi að enn hefur ekki verið sýnt fram á að framið hafi verið neitt lögbrot í máli Önnu S. Pálsdóttur eiginkonu ráðherra. Hvaða almanna hagsmuni er þá um að ræða.

Grípum aftur niður í leiðara Morgunblaðsins:

„En það var hverju orði sannara að nefndir voru til sögunnar einræðisherrar og eiturlyfjabarónar. Og „Prime Minister Gunnlaugsson“ var nefndur sérstaklega í þessari andrá, rétt eins og hann hefði sölsað undir sig ríkiseignir og falið þýfið í skattaskjólum. Og sú falska mynd verður óneitanlega trúverðugri þegar myndband fyrirsátsmanna er notað til skreytingar. En hún verður ekki sönn við það.“

Ljóst er að þegar rykið fer að setjast af þessu moldviðri þá er ljóst að ríkisfjölmiðillinn hefur algerlega brugðist öllum þeim grundvallar reglum sem hann telur sig hafa í heiðri og hann hefur sett sér. Áhugavert verður að sjá hver af yfirmönnum stofnunarinnar, fréttastjórinn, dagskrárstjórinn eða útvarpsstjórinn ætlar að axla á þessu ábyrgð.

Comments

comments