Oddný Harðardóttir og Logi Már Einarsson Mynd: Hringbraut

Oddný Harðardóttir og Logi Már Einarsson
Mynd: Hringbraut

Ný forysta Samfylkingarinnar var kjörin nú um helgina. Oddný Harðardóttir var kjörin formaður. Kosningin kom í sjálfu sér ekki á óvart en margir hafa síðustu klukkutímana velt fyrir sér hvaða áhrif þetta muni hafa á hið pólitíska landslag.

Í þættinum Á Sprengisandi hjá Páli Magnússyni sagðist Oddný vera jafnaðarmaður og að Samfylkingin væri jafnaðarmannaflokkur. Hún áttaði sig bara ekki á umræðu um hægri eða vinstri jafnaðarmenn. Samfylkingin væri velferðarflokkur sem vildi beita markaðslausnum þegar svo bæri við.

Einn heimildarmanna Veggsins orðaði sína sýn á nýjan formann svona.

„Það er alveg ljóst öllum sem kæra sig um að opna augun að Jóhanna fór með Samfylkinguna lengst til vinstri og stefna flokksins á enga samleið með jafnaðarstefnu þeirri sem rekin er á hinum Norðurlöndunum.“

Síðar í sama viðtali segir sami heimildarmaður.

„Þetta fólk talar eins og jafnaðarmenn og telur sig eflaust vera jafnaðarfólk en verk þess eru önnur en orðræðan. Þannig hefur bullandi vinstri pólitík verið rekin á vakt flokksins og það að nýr formaður lýsi því yfir að hún ætli að starfa í anda Jóhönnu er endapunktur fyrir mig í tengslum við þennan flokk. Þarna er rekin öfundar pólitík þar sem öllu frumkvæði á að drekkja í skattheimtu í nafni jafnaðarstefnunnar. Ég held að þetta fólk viti ekki út á hvað hún gengur.“

Almennt virðist fólk ekki vita mikið um nýjan varaformann Loga Má Einarsson eða fyrir hvað hann stendur. Í honum virðist þó felast einhver von um ferska vinda og alvöru jafnaðarstefnu. Ljóst er samt að ef nýr formaður ætlar að halda áfram að gæla við vinstri öfl samfélagsins mun flokkurinn ekki ná sér á flug.

Comments

comments