Ritstjóri rakst á þessar hugleiðingar Hólmgeirs Karlssonar á Facebook í vikunni. Þær eru orð í tíma töluð, áminning til okkar um að nærgætni skal hafa í nærveru sálar. Nú þurfum við hin að taka þessa ábendingu hans alvarlega og vanda málfar okkar. Það þarf mikið hugrekki að koma fram með svona hugleiðingar beint frá hjartanu. Spurningin er svo hvort að við hin þ.m.t. sá sem hér skrifar hafi hugrekki til þess að ganga fram með sama hætti. Við eigum að stunda rökræður en ekki formælingar.

Hugleiðingar Hólmgeirs í heilu lagi hér að neðan.

——-

Hversu ljótt getur fólk orðið hér á FB?

Frelsi til að tjá sig í ræðu og riti er eitt af grunngildunum í samfélaginu okkar. En ég spyr, hversu langt á fólki að líðast að ganga í hreinu skítkasti og rógburði um menn og málefni á samfélagsmiðlum eins og hér á FB ?

Ég hef orðið miklar áhyggjur af þessu og veit um margt fólk sem hreinlega veigrar sér við að reifa skoðanir sínar af ótta við að fá yfir sig ósómann og skítkastið.

Sjálfur hef ég tekið ríkan þátt um ævina bæði í atvinnulífinu og í samfélagslegum verkefnum af ýmsum toga og hef þar af leiðandi allgóða innsýn í hvað skiptir máli og hvað ekki til að samfélagið okkar virki og þjóni tilgangi sínum sem best. Ég hef því skoðanir á málum sem ég set oft fram í von um að geta tekið þátt í málefnalegri umræðu um þau.

En slíkt er varla hægt lengur hér á Facebook því hér virðist vera ótrúlegur fjöldi fólks sem finnst bara allt í lagi að skíta út allt og alla ef viðkomandi er ekki sammála, í stað þess að lýsa bara ólíku viðhorfi sínu eða skoðun á móti.

Margt af því sem er skrifað er svo ljótt, heimskt og rætið að það er ekki hægt að hafa það eftir. Ég ætla þó að taka smá dæmi. Eftir að hafa skrifað smá pistla um verk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er hann gekk gegn kröfuhöfum föllnu bankanna á hátt sem mér hefur þótt aðdáunarverður og fundist að við sem þjóð ættum honum þakkir skildar fyrir, hef ég fengið hin ótrúlegustu komment á skrifin mín. (komment sem eru þó mörg saklaus samanborið við það sem sagt er um hann sjálfan)

Ég hef notið þess heiðurs að vera kallaður: heilabilaður, ekki mikið til í hausnum á þessum, á hvaða lyfjum er þessi ræfill eiginlega, sauðheimskur, meðvirkur vesalingur, svo eitthvað sé nefnt.

Ég hef ekki látið þetta trufla mig og bara haldið mínu striki með málefnalegum skrifum vitandi að ekkert af þessu hefur átt við mig, en hugsanlega gefið betri lýsingu á þeim sem þetta skrifaði hverju sinni. Þó tók steininn úr þegar ungur maður kommentaði hjá mér með þessum orðum: „amma hans hlýtur að hafa verið aumingi“.

Þetta sárnaði mér og fékk mig til að hugsa. Hversu langt á að líða fólki að ganga í innantómum óþverraskap.

Uppi á vegg í stofunni hjá mér hangir mynd af móðurömmu minni, konu sem dó kornung og ég fékk aldrei að kynnast nema af frásögnum. Einstaklega falleg og góð kona sem hefur fylgt mér alla tíð í huga og alltaf verið hjá mér ákveðinn söknuður yfir að fá ekki að kynnast henni. Trúi því reyndar að hún sé oft með mér í för, en það er nú önnur saga.

Ég viðurkenni að á þessari stund runnu ljót orð um huga minn, „hvað ætti þessi ómerkilegi andskotans ræfill að geta vitað um ömmu mína sálugu sem réttlætti slíkt orðaval“. Þessi orð fóru þó ekki á prent hjá mér, en ég eyddi bara kommentinu sem mér féll ekki að hafa á síðunni minni.

Er ekki tímabært að við tökum okkur saman og gerum samfélagsmiðla eins og samfélagið sem við viljum búa í. Skrifum ekki annað hér um fólk en það sem við myndum segja við það augliti til auglitis. Virðum ólíkar skoðanir hvers annars og tjáum okkur á kurteisan hátt og málefnalegan.

Ég myndi að minnsta kosti ekki vilja að börnin mín eða barnabörn síðar síðar meir læsu slíkt á netinu, googlandi gamla, til að skrifa um hann skólaritgerð eða þá minningargrein 🙂

Sýnum virðingu og verum uppbyggileg 

Comments

comments