Fréttaflutningur af stjórnarmyndunarviðræðum síðustu daga hefur vakið ugg hjá bændum og vafalaust fleirum sem byggja afkomu sína á matvælaframleiðslu víða um land. Hugmyndir eru uppi um að fara í stórfelldar breytingar á starfsumhverfi landbúnaðarins og taka úr sambandi það sáttarferli sem Alþingi markaði síðastliðið haust þegar ákveðið var að setja á fót samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga.

Hverju vilja stjórnmálamenn fórna?

Bændur hafa oftsinnis bent á þann fórnarkostnað sem aukinn innflutningur á erlendum búvörum eins og kjöti, grænmeti og mjólkurvörum hefur í för með sér. Það kann að vera að hægt sé að flytja inn ódýran mat sem á uppruna sinn í fjarlægum löndum þar sem kröfur um heilnæmi afurða og aðbúnað dýra eru lakari en á Íslandi, vinnulöggjöf er í skötulíki og launastig annað en við eigum að venjast. Um leið og innflutningur eykst á sambærilegum vörum og hér eru framleiddar um allt land mun byggðamynstur breytast og bændum fækka hratt.

Bændur hafa fullan hug á að taka þátt í þessu ferli með opnum huga og með það að markmiði að efla íslenska matvælaframleiðslu og komast að niðurstöðu sem er í þágu bænda og almennings á Íslandi. Það er því von Bændasamtaka Íslands að ný ríkisstjórn taki það ekki úr sambandi heldur standi við þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Einhliða tollalækkanir og stórkarlalegar yfirlýsingar um aukinn innflutning á mat ógna tilvist íslenskrar matvælaframleiðslu og eru feigðarflan að mati bænda.

Skrifar Sindri Sigurgeirsson m.a. á vefinn bóndi.is, hér má sjá grein hans í heild.

Comments

comments