Margt bendir til þess að ný og spennandi tækifæri séu að skapast í íslenskum orkuiðnaði. Álrisinn Alcoa sem er móðurfyrirtæki Fjarðaráls á Reyðarfirði lagði sérstaka áherslu á kolefnislágar vörur sem framleiddar eru fyrir austan á stærstu álsýningu heims, sem haldin er í Dusseldorf. Sérstök áhersla var lögð á ál sem framleitt er með vatnsorku og einnig á endurunnið ál. Þetta eru nokkur tíðindi á markaði með ál. Það hefur verið nánast óþekkt hingað til að álframleiðendur aðgreini sig með þessum hætti á markaði. í þessari aðgreiningu felast gríðarleg tækifæri fyrir íslenskan útflutning á áli.

Hvergi í heiminum er ál framleitt með lægra kolefnisfótspori en hér á landi. Ef horft er til Kína þar sem álframleiðsla er einkum að byggjast upp, þá er 90% áls framleitt með kolum og losun gróðurhúsalofttegunda því tífalt meiri en hér á landi. Ál er því ekki sama og ál þegar grannt er skoðað.

Ef álnotendur í fjölbreyttum iðnaði sjá markaðsleg tækifæri í því að nota ál með lágu kolefnisfótspori geta álframleiðendur hér á landi mögulega fengið mun hærra verð fyrir afurðir sínar en almennt gerist. Áhugavert verður að fylgjast með framþróun álmarkaða næstu misserin.

 

Comments

comments