Sigurdur GSigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, segir að lögin sem sett voru eftir gengislánadóm Hæstaréttar séu lögleysa. Þau hafi eingöngu verið sett til að vernda kröfuhafa á kostnað skuldara. Hann segir innheimtu þessara lána standa undir meginþorra hagnaðar bankanna.

Þessu heldur Sigurður fram í grein sem hann birtir á Pressunni. Umrædd lög voru samþykkt í desember í fyrra, en Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra kynnti efni frumvarpsins á blaðamannafundi þann 16. september. Sigurður bendir í greininni að heimspekiprófessorarnir Vihjálmur Árnason og Róbert H. Haraldsson hafi verið fengnir að gerð frumvarpsins til að tryggja að það endurspeglaði sanngirnis- og réttlætissjónarmið.

„Kannski þess vegna taldi ráðherrann og Alþingi sig ekki þurfa við lagasetninguna að gefa gaum að almennum reglum kröfuréttar, eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og því grundvallar viðhorfi í íslenskum rétti að lög séu almennt ekki afturvirk.“

Sigurður segir að efni umræddra laga fari gegn öllum þessum reglum. Samkvæmt lögunum fengu lánveitendur heimild til að endurreikna lán sín og krefja viðsemjendur sína að nýju um greiðslu þegar greiddrar afborgana með hærri vöxtum.

Þetta ákvæði fer í bága við þá grundvallarreglu kröfuréttarins að við greiðslu kröfu sé henni lokið.

segir Sigurður heldur áfram:

Þegar krafa er liðin undir lok vegna greiðslu er greiðsluskyldu skuldarans lokið. Kröfuhafinn á eftir það enga lögvarða kröfu á hendur skuldaranum sem knýja mætti hann til greiðslu á með atbeina dómstóla. Reyndi  kröfuhafinn það yrði skuldarinn sýknaður. Með lögum nr. 151/2010 eru lánveitendur ólögmætra lána undanþegnir þessari reglu og geta því fengið dóm fyrir greiddum kröfum í nafni sanngirnis- og siðferðissjónarmiða.

Sigurður segir að Alþingi geti ekki ákveðið að kröfurhafar fái heimild til að að endurlífga dauðar kröfur og krafið viðsemjendur sína um greiðslu að nýju eða nokkru leyti. Slíkt gangi gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og það ákvæði geri ekki greinarmun á skuldurum og kröfuhöfum.

Eignarréttur skuldara verður því ekki fremur en eignarréttu kröfuhafa skertur nema almenningsþörf krefji, með lögum og gegn greiðslu fulls verðs.   Af almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 151/2010 verður ekki ráðið að almenningsþörf hafi kallað á setningu laganna.  Miklu fremur sérhagsmunir kröfuhafanna…

Sigurður segir að ekki verði annað ráðið en að lögin hafi verið sett í þágu kröfuhafanna. Það hafi verið gert til að fá sem fyrst skorið úr verðmæti eignasafna sinna án þess að kosta miklu til. Umrædd eignasöfn eru verðtryggð og gengistryggð húsnæðislán sem bankarnir fengu sem heimanmund með „verulegum afslætti“.

Innheimta lána þessara og endurvinnsla á vegum nýju bankanna stendur að stærstum hluta undir hagnaðar þeirra, sem ekki er lítill. Þeir sem njóta  eru kröfuhafar gömlu bankanna.

Loks segir Sigurður:

Með lögum nr. 151/2010 stóð Alþingi því á ný vörð um hagsmuni kröfuhafa á kostnað skuldara. Skilaboð Alþingis eru einföld. Ganga má á eignarréttini skuldara til að slá skjaldborg um eigaréttindi kröfuhafa. Telst þetta væntanlega bæði siðlegt og sanngjarnt.

Lögum nr. 151/2010 var ætlað að skapa sátt og samstöðu í þjóðfélaginu, þar sem þau geymdu einföld, sanngjörn og skilvirk úrræði fyrir einstaklinga sem skulduðu bíla- og húsnæðislán. Því er ekki að heilsa. Þau geyma aðeins einföld og ósanngjörn úrræði gagnvart megin þorra skuldara.Þegar horft er til þess sem að framan hefur verið rakið má segja að lög  nr. 151/2010 séu í besta falli siðleg lögleysa í  andstöðu við hugmyndina  um réttarríkið.

Smelltu hér til að lesa pistil Sigurðar G. Guðjónssonar.

Heimild Sigurður G. Guðjónsson og Pressan.is

Comments

comments