Vilhjálmur Birgisson vill fá skýr svör frá væntanlegum herrum í stjórnarráðinu hvað þeir hyggjast gera varðandi okurvexti og verðtryggingu. Hann setti fram þess skoðun sína fyrr í dag á Facebook.

„Nú þegar það liggur orðið nokkuð ljóst fyrir að ekki á að hlusta á vilja þjóðarinnar um að rjúfa þing og efna til kosninga þá myndi ég vilja fá skýr svör frá þingflokkum Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna um hvað þeir ætli að gera hvað varðar stóra kosningaloforðið sem er að sjálfsögðu að taka hér á okurvöxtum fjármálakerfisins og afnema verðtrygginguna.

Með öðrum orðum, ætlar núverandi ríkisstjórn að láta almenning í þessu landi borga 300% hærri húsnæðisvexti en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við?

Ætlar ríkisstjórnin að standa við stóra kosningaloforið um afnám verðtryggingar?

Ætlar ríkisstjórnin að horfa átölulaust á að stýrivextir Seðlabankans séu yfir 1000% hærri en á Norðurlöndunum og ætlar ríkisstjórnin að halda áfram að láta það átölulaust að Seðlabankinn hækki stýrivexti sem gerir það að verkum að peningar frá skuldsettum heimilum eru færðir frá þeim til fjármálafyrirtækja?

Eða ætlar ríkisstjórnin að viðhalda því ofurdekri við fjármálakerfið eins og viðgengist hefur hér á landi í áratugi?

Ég vil fá svar við þessum spurningum enda eru þessi mál mestu hagsmunamál íslenskra heimila og íslenskrar alþýðu.“

Comments

comments