SamfylkingarkulanUngir jafnaðarmenn skora á Samfylkingarfólk að það samþykki á landsfundi ályktun sem felur í sér að enginn sitjandi þingmanna Samfylkingarinnar verði í oddvitasæti í komandi kosningum.

Eftirfarandi ályktun hefur hópurinn sent á landsfund Samfylkingarmanna en fundurinn verður haldinn í byrjun júní. Þar verður kjörinn nýr formaður en hingað til hafa fimm manns tilkynnt um framboð sitt til embættisins; sitjandi formaður Árni Páll Árnason, Oddný Harðardóttir, Guðmundur Ari Sigurjónsson, Helgi Hjörvar og Magnús Orri Schram. Það vekur sérstaka athygli hér, að allir frambjóðendur að Magnúsi Orra undanskyldum eru sitjandi þingmenn. Verði þessi tillaga samþykkt, þá eru þrír formannsframbjóðendur í þeirri einkennilegu stöðu að vera útilokaðir frá oddvitasætum.

Sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar eru: Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Össur Skarphéðinsson.

Hér er ályktun Ungra jafnaðarmanna í heild sinni.

„Ungir jafnaðarmenn skora á landsfund Samfylkingarinnar, haldinn 3. – 4. júní 2016, að samþykkja ályktun þessa. Engin endurnýjun átti sér stað í þingflokki Samfylkingarinnar í alþingiskosningum 2013. Ef skoðað er fylgi Samfylkingarinnar eins og það mælist í dag er útlit fyrir að það sama verði uppi á teningnum í næstu kosningum. Það er vilji landsfundar Samfylkingarinnar að enginn sitjandi þingmanna Samfylkingarinnar taki oddvitasæti á framboðslitum í komandi þingkosningum. Með þessu er tryggt að endurnýjun verði sett í fyrsta sæti. Bæti Samfylkingin við sig fylgi fram að kosningum eiga sitjandi þingmenn greiða leið aftur inn á Alþingi, hafi þeir hlotið brautargengi meðal flokksfélaga sinna í flokksvali. Sitjandi þingmenn eru þeir þingmenn sem sitja fyrir hönd Samfylkingarinnar á Alþingi Íslendinga þegar ályktun þessi er samþykkt.“

Comments

comments