Halldór Jónsson, verkfræðingur sem verið hefur áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi til áratuga, hefur sagt skilið við flokkinn.

Halldór er ósáttur við framgöngu Ármanns Kr. Ólafssonar bæjarstjóra sem hefur gert samkomulag um undirbúning svonefndrar borgarlínu, sem á að vera hágæða almenningssamgöngukerfi á höfuðborgarsvæðinu. Hann er raunar ekki aðeins ósáttur við Ármann, heldur fá aðrir bæjarstjórar Sjálfstæðisflokksins einnig kaldar kveðjur frá honum, en þeir tóku allir þátt í samkomulaginu um borgarlínuna. Það eru þau Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ.

„Miklir hljóta hæfileikar Dags B. Eggertssonar á stjórnmálasviðinu að vera þegar  Sjálfstæðismenn í sveitarstjórnum láta hann hafa slíka forystu fyrir sér í Borgarlínu-, léttlestakerfinu og flugvallarmálinu  í stríðinu við nútímann og einkabílinn,“ segir Halldór.

Og hann spyr:

 

 

„Eru þeir bæjarstjórar allir núna sameinaðir í að tryggja Degi B. og hans fólki áframhaldandi völd í Reykjavík?

Hafa þau Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi, Ásgerður Halldórsdóttir á Seltjarnarnesi og Gunnar Einarsson í Garðabæ tekið sæti í endurkjörsnefnd Dags B. Eggertssonar og vinstri meirihlutans í Reykjavík?

Sjálfstæðisflokkurinn þarf greinilega ekki á mínu atkvæði að halda að vori þar sem upprunnir virðast nýir tímar. Ég á ekki samleið með Degi B. Eggertssyni og hans stefnumálum.

Lifi þetta góða Sjálfstæðisfólk marga góða Daga og takk fyrir mig.“

Comments

comments