thingmenn

Séð og heyrt birti eftirfarandi frétt á vef sínum.

„Fjöldi þingmanna hefur tekið upp á því að stunda nám samhliða þingstörfum og veldur það pirringi meðal annarra þingmanna sem telja sig vart hafa undan við að sinna skyldum þeim sem starfinu fylgja á Alþingi. Á nefndarfundum sitji sumir þingmenn og séu hreinlega að læra fyrir næsta skólatíma.

Meðal þingmanna sem stundað hafa nám samhliða þingstörfum eða eru enn í námi má nefna Vilhjálm Árnason sjálfstæðismann sem þekktastur er fyrir baráttu sína fyrir víni í verslunum og Karl Garðarsson framsóknarmann en báðir stunduðu þeir nám í lögfræði á þingtíma.

Þá má nefna framsóknarþingkonurnar Elsu Láru Arnardóttur og Silju Dögg Gunnarsdóttur sem báðar hafa verið í námi og Elsa segir: „Ég hætti í náminu. Þetta var of mikið fyrir mig samhliða vinnu.“

Framsóknarmaðurinn Haraldur Einarsson hefur verið í verkfræði og Róbert Marshall í Bjartri framtíð við námi í ferðamálafræðum.

Samkvæmt Séð og heyrt er listi þessi ekki tæmandi.“

Það sýnist sitt hverjum. Þannig blandaði fyrrverandi fréttastjóri RÚV Óðinn Jónsson sér í þessa umræðu þegar hann skrifaði á Facebook vegg sinn

„Dæmigert fyrir þessa óvönduðu og plebbalegu fjölmiðla, Séð&heyrt og Hringbraut, að amast við við því að alþingismenn leiti sér menntunar á kostnað skattgreiðenda. Er þingmennska ekki þroskaferill og sjálfsleit – eiginlega lífsstíll, frekar en vinna? Og verða blessaðir þingmennirnir ekki að huga að útleið eiginlega um leið og þeir slysast til að vera kjörnir á þing? Er þá nokkuð sjálfsagðara en að þingmennirnir stundi nám á launum frá okkur, sem eigum svo mikið undir þeirra góðu leiðsögn og traustu ákvörðunum?“

Veggurinn verður að skipa sér í hóp þessara plebbalegu fjölmiðla og taka undir það sjónarmið að þingmenn eru ekki forréttindahópur í þessu þjóðfélagi og verða þeir að sinna skildum sínum gagnvart þjóðinni fyrst og geta notað frítíma sinn eins og aðrir til þess að auka þekkingu sína.

Comments

comments