750 lítrar á sekúndu í 10 daga athugasemdalaust!

Margir furða sig á þögn Dags B. Eggertssonar varðandi bilunina í skólpkerfi borgarinnar. Það voru ekki nema 648 þúsund tonn af skít sem að var dælt yfir fjörurnar í vesturbænum.

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins tjáir sig um þetta og segir það vera með ólíkindum að engar viðvaranir hafi verið gefnar gagnrýnir hann meirihlutann í Reykjavíkurborg og sérstaklega borgarstjóra fyrir að tjá sig ekki um málið.

Óli Björn vitnar í bloggfærslu Sigurðar Sigurðarssonar sem segir það dæmigert að borgarstjóri hverfi þegar eitthvað bjáti á:

„Fyrir einhverjar stórfurðulegar raðtilviljanir ratar borgarstjórinn alltaf inn á fréttasíður fjölmiðla og í mynd sjónvarpsstöðva þegar eitthvað skemmtilegt er að gerast.

  • Þegar dælustöð bilar og milljónir lítra af úrgangi dreifast um Fossvog forðar borgarstjóri sér út um bakdyrnar.
  • Þegar framkvæmdir við Miklubraut valda því að gatan er hálflokuð eru embættismenn settir í að útskýra málið.
  • Þegar loka á Geirsgötu og umferðin úr og í Vesturbæ er send um hálflokaða Miklubraut er borgarstjóri eins og aðrir huldumenn, hvergi sjáanlegur.
  • Þegar upp kemur að gúmmíkurl á fótboltavöllum getur verið skaðlegt íþróttafólki er borgarstjóri í fríi.
  • Þegar Reykvíkingar kvarta hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt bíla eru embættismenn sendir til að bera í bætiflákann, borgarstjóri er ekki til viðtals.
  • Fleira má nefna, af nógu er að taka.

Út af fyrir sig er það sniðugt „PR stunt“ að vera bara í góðu málunum, setja embættismenn í þau vondu. Það gerði Jón Gnarr og Dagur B. Eggertsson fylgir sömu stefnu. Á meðan gróa njólar á umferðagötu, saur og dömubindi nema land í Nauthólsvík.“

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík tekur í sama streng á Fésbók:

 „Fjölmiðlar fá engin svör hjá borgarstjóra enda finnst hann ekki þegar mál af þessum toga koma upp.“

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra segir á Fésbók það vera furðulegt að talað sé um bilun en ekki mengunarslys sem kalli á rannsókn, segir hann að viðbrögð borgarstjóra jafngildi afsögn:

„Mengunarslys af þessu tagi eru jafnan tekin föstum tökum af þeim sem stjórna borgum og bæjum. Hér átti borgarfyrirtæki hlut að máli og farið var leynt með slysið dögum saman. Borgarstjórinn hefur ekki enn komið fram og skýrt málið eða svarað spurningum fréttamanna, því síður talað beint til borgarbúa. Slysið eitt hefði átt að leiða til spurninga um afsögn. Framkoman eftir slysið jafngildir í raun afsögn.“

Ljóst er að Borgarstjóri hefur með framferði sínu og þögn reitt marga borgarbúa til reiði. um er að ræða alveg gríðarlegt magn af saurmengun sem er búin að renna þarna til sjávar í 10 daga. Ekki eitt orð til íbúa til varnar, ekki eitt orð til þess að biðjast afsökunar heldur bara þögn. Framkoma borgarstjóra þykir lítilmannleg.

 

 

Comments

comments