Ég hitti í dag kanadísk hjón sem voru að feta í fótspor vinahjóna sem fóru fyrir ári hringinn um Ísland. Nema hvað, nú hafði á einu ári, staða kanadíska dalsins veikst um 22% gagnvart krónunni miðað við það sem var þegar vinirnir voru hér á ferð og þar að auki höfðu íslenskir kaupmenn ákveðið að hækka verðið á ristuðu brauði með osti og öðrum nauðþurftum umfram gengisþróun til að græða aðeins meira. Hjónin voru hálf flóttaleg þegar ég spurði hvort þeim fyndist vika ekki vera heldur of stutt stopp á okkar yndislega Íslandi. Þau sögðust ekki hafa ráð á því að vera hér hálftíma lengur, hvað þá meira. Það er eitthvað bogið við Ísland í dag og læðist að manni hrunhrollur en það er best að þegja því annars verður maður bara kallaður úrtölumaður eða eitthvað þaðan af verra. Það er samt alltaf jafn fallegt á Akureyri og ósköp er veðrið gott.

Comments

comments