VedurEins og búist var við gengur mikið óveður nú yfir landið. Ástandið er í augnablikinu verst í Vestmanneyjum þar sem þak fauk af íbúðarhúsi og lenti í garði nágrannans. Þök af fjórum öðrum húsum hafa losnað og allt lauslegt fýkur. Svo slæmt er ástandið að ekki er talið öruggt að björgunarsveitarfólk sé á ferli þar. Fólki þar er ráðlagt að halda sig hlémegin í húsum sínum.

Vindinn er að herða á höfuðborgarsvæðinu og eitthvað smávegis fok er komið í gang. Sem betur fer hefur fólk haft tilmæli almannavarna og lögreglu að leiðarljósi og er ekki á ferli. Reykjanesbraut hefur verið lokað. Frá Hvolsvelli berast þær fréttir að þakplötur séu farnar að fjúka.

Um 200 björgunarsveitarmenn eru nú að undirbúa sig fyrir átök á höfuðborgarsvæðinu í kvöld og í nótt. Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir því að veðrið verði hvað verst þar á milli klukkan níu og tólf í kvöld.

Comments

comments