Tölulegar staðreyndir um Borgarlínu hafa verið að koma fram ein af annarri síðustu daga. Þannig var upplýst að innviðafjárfesting Borgarlínu er áætluð 1,1 milljarður á hvern kílómeter. Reiknað er með að árið 2040 verið íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins komin í u.þ.b. þrjúhundruð þúsund manns. Hlutdeild Strætó er í dag 4% og Borgarlínan á að bæta við 8% þannig að samanlagt verði þessi samgöngukerfi að flytja 12% af íbúafjöldanum. Þetta þýðir að gert er ráð fyrir því að Borgarlínan flytji um tuttugu og fjögurþúsund manns á dag.

Vagnarnir eiga að fara á fimm til sjö mínútna fresti og stoppa á 600 til 1000 metra millibili. Förum millileiðina og gefum okkur 800 metra á milli stoppa. Leiðin frá Lækjartorgi upp í efri byggðir Kópavogs er um 13 kílómetrar, svolítið breytilegt eftir því hvaða leið er valin en þetta er ekki langt frá lagi. Það þýðir að Borgarlínan mundi stoppa 16 sinnum á leiðinni. Gefum okkur að meðalhraðinn á vagninum á ferð sé um 50 km/klst þar sem hann stoppar oft getur hann tæpast verið mikið hærri.  Vagninn er því svona 15 mínútur á akstri þessa leið upp í efri byggðir Kópavogs ef hann fær forgang og enga truflun.

Gefum okkur að vagninn stoppi í 45 sek að meðaltali á hverjum stað, til þess að hleypa fólki inn og út. Það eru samanlagt 12 mínútur í stopp á leiðinni. Ferðatíminn frá miðborginni í efri byggðir Kópavogs mun því fara úr 40 mínútum með Strætó, niður í  27 mínútur með Borgarlínu. Það er vissulega nokkur tímasparnaður. Samt nokkuð minni tímasparnaður en forráðamenn Borgarlínu vilja vera láta.

Svo eru það fargjöldin. Gefum okkur að flestir sem noti Borgarlínu geri það reglulega og þeir kaupi sér þriggja mánaðarkort eða jafnvel enn lengri tíma. Gefum okkur líka að mánaðargjaldið verði helmingi dýrara en með Strætó. það gera þá 12500 krónur á mánuði á mann. Það eru um 300 milljónir í tekjur á mánuði árið 2040 þegar markmiðum um fjölda er náð og farþegar Borgarlínu verða 24 þúsund manns á dag. Þetta eru 3,6 milljarðar á ári sem dugar vart fyrir afskriftum af innviðafjárfestingunni, hvað þá rekstri.

Til þess að Borgarlína geti rekið sig þarf 750 milljónir á mánuði í veltu. Það þýðir að árið 2040 þegar 24 þúsund manns nota kerfið, að mánaðargjaldið fyrir hvern og einn verður rúmlega 31 þúsund. Eða eitt þúsund krónur á dag fyrir hvern notenda. Þetta er ekki langt frá því að vera sambærilegt við það að eiga og reka einn lítinn rafmagnsbíl á ári.

Comments

comments