Öllum nema mögulega borgarstjórnarmeirihlutanum er ljóst að skipulagsmál Reykjavíkurborgar eru í molum. Einn þeirra sem hefur áttað sig á því er samfélagsrýnirinn Marínó G. Njálsson. Mbl.is birti grein um daginn sem bar yfirskriftina „miklu lofað og lítið um efndir“ Þar sem sjónarmið borgarstjóra annarsvegar og Sjálfstæðisflokksins hinsvegar voru sett fram. I tilefni af því skrifaði Marínó þessa færslu sem veggurinn tekur heilshugar undir. Hér talar rödd skynseminnar.

Marínó G. Njálsson skrifar á Facebook vegg sinn:

Borgarstjóri ber sér á brjósti yfir því að 900 íbúðir séu í byggingu á rándýrum byggingareitum, þar sem verið er að þétta byggð. Hann vill ekki byggja í Úlfarárdal, því það eykur umferðina á Miklubraut. En fái fólk ekki húsnæði innan borgarlandsins, því 900 íbúðir eru eins og upp í nös á ketti, þá leitar það einfaldlega til nágrannabyggðalaganna og þarf samt sem áður að keyra Miklubrautina.

En hvers vegna er fólk að keyra Miklubrautina? Jú, vegna þess að búið er að hlaða allri mannfrekri atvinnustarfsemi og stærstu skólum landsins á stöðum sem krefjast þess að fólk aki Miklubrautina milli vinnu/skóla og heimilis. Á svæði sem markast af Hofsvallagötu/Túngötu/Ægisgötu í vestri og Nóatúni/Lönguhlíð/Öskjuhlíð í austri eru tveir háskólar, þrír framhaldsskólar, m.a. sá stærsti á landinu, Landspítalinn, Landsbankinn með sínar höfuðstöðvar, Arion banki með sínar höfuðstöðvar, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, öll ráðuneytin, fjöldi hótela, höfuðstöðvar Icelandair og stærsta verslunargata landsins ásamt óteljandi öðrum vinnustöðum. Staðreyndin er að skipulagsmál höfuðborgarinnar eru ekki að taka tillit til fjölgunar borgarbúa og enn er stórum hluta atvinnustarfsemi markað svæði í póstnúmerum 101 og hluta 104 og 105. Reykjavíkurborg hefði betur átt að hvetja til þess að uppbygging nýs þjóðarsjúkrahúss færi fram austar á höfuðborgarsvæðinu, Háskólinn í Reykjavík hefði ekki átt að fá lóð við Nauthólsvík og borgin ætti að hvetja Landsbankann til að fara með höfuðstöðvar sínar í austari hluta borgarinnar. Í nýrri Vogabyggð ætti að bjóða upp á lóðir fyrir atvinnustarfsemi á hlutasvæðisins. Bjóða þarf atvinnulífinu upp á fjölbreyttari möguleika til að koma mannfrekri starfsemi fyrir í austurhluta borgarlandsins. En jafnvel þetta mun ekki breyta því að umferð verður þung á Miklubraut. Staðreyndin er að margir KJÓSA að búa ekki í miðbænum þó vinna sé sótt þangað, það hafa ekki efni á því að búa í miðbænum og þó fólk vildi og byggt væri á öllum þéttingarreitum, þá er ekki nægt framboð af húsnæði í miðbænum. Húsnæðisvandinn er núna og því er ekki hægt að leysa hann með byggð í Vatnsmýrinni í óráðinni framtíð.

Verið getur að fólk reyni að velja sér búsetu nálægt vinnustað. Á heimilum með tvær fyrirvinnur eru líklega tveir vinnustaðir og tilviljun að það takist að finna húsnæði nálægt báðum. Eða var það skólahverfið sem réð búsetunni, ekki vinnustaður? Svo eldast börnin og komast í framhaldsskóla sem er fjarri heimili (hafi fólk ekki flutt í millitíðinni) og vinnustað foreldranna, að ég tali nú ekki um háskóla en tveir þeir stærstu eru frekar vestarlega á borgarlandinu og loks fer unga fólkið að heiman, en vegna verðs á húsnæði á Reykjavíkursvæðinu, þá flytur það til Hveragerðis eða í Borgarnes því það hefur efni á húsnæðinu þar, en ekki í Reykjavík. Kaldhæðni hvernig útópían um þvingaða þéttingu byggðar bítur í rassinn á sér.

Þetta er síðan enn flóknara en þetta og ég efast um að líkön nái vel að fanga flækjustigið. Þó er ég menntaður í aðgerðarannsóknum og ætti að hafa mikla trú á stærðfræðilíkönum. Svo ég taki sjálfan mig sem dæmi, þá hef ég skipt nokkuð oft um bæði húsnæði og skóla/vinnu á undanförnum 40 árum. Ég er núna að mestu búsettur í Danmörku, en bjó í eftirfarandi póstnúmerum á Reykjavíkursvæðinu fram til 2012 í réttri tímaröð (innan sviga eru póstnúmer vinnustaða/skóla þangað sem ég sótti á nánast hverjum degi): 170 (170/101), 107 (107), erlendis, 101 (108), 104 (108/110), 170 (108), 107 (108/101), 101 (101), 112 (101), 105 (101/110), 201 (110/sjálfstætt starfandi) og 203 (sjálfstætt starfandi). Ég reikna frekar með því, að ég sé hinn dæmigerði höfuðborgarsvæðisbúi. Finn mér húsnæði sem hentar mér og fjölskyldunni hverju sinni, er laust þegar ég þarf að flytja, ég hef efni á og er á svæði þar sem fjölskyldan getur hugsað sér að búa. Ég sæki síðan um atvinnu, sem heillar mig, hentar mér og ég er hæfur til að gegna, þar sem slíka vinnu er að fá, þegar að því kemur að ég þarf eða mig langar að skipta um vinnu. Með fullri virðingu fyrir skipulagstilburðum og -hæfileikum Reykjavíkurborgar, þá dugar ekki þétting byggðar til tryggja einstaklingi eins og mér húsnæði nærri vinnustað. Ég er heldur ekki að flytja í hvert sinn, sem ég skipti um vinnu, né skipti ég um vinnu í hvert sinn sem ég flyt. Raunar er ákveðin skynsemi í því að blanda þessu tvennu ekki saman nema algjör nauðsyn sé.

Svona í lokin: Flestir búa, þar sem þeim líður vel, ekki þar sem yfirvöld vilja að þeir búi. Fólk er tilbúið að leggja á sig ákveðin óþægindi til að geta búið á draumastaðnum sínum. Fjárhagur og fjölskylduaðstæður ráða meiru um búsetu en vinnustaður.

 

Færslan er skrifuð í tilefni þessarar fréttar á mbl.is

 

Comments

comments