Mikil reiði er meðal neytenda vegna ummæla sem höfð eru eftir Ara Edwald forstjóra Mjólkursamsölunnar eftir að Samkeppniseftirlitið lagði á fyrir tækið stjórnvaldssekt vegna alvarlegra samkeppnisbrota.
Í frétt sem RÚV birti um málið er haft eftir Ara Edwald,
„að fyrirtækið verði að hækka vöruverð til að eiga fyrir 480 milljóna króna sekt sem Samkeppniseftirlitið hefur lagt á fyrirtækið. Kostnaðurinn lendi því að lokum á neytendum. Fyrirtækið ætli hins vegar að áfrýja niðurstöðunni og sé tilbúið til að fara með málið alla leið fyrir dómstólum, ef þörf krefur.“

Þessi ummæli hafa vakið hörð viðbrögð og sýna vel óskammfeilni forstjórans og eða fyrirtækisins, þar á bæ er litið á stjórnvaldssekt sem tækifæri til þess að hækka verð í þeim tilgangi að velta sektinni yfir á neytendur. Fyrirtækið ætlar því að láta neytendur greiða fyrir sektina undir því yfirskyni að þeir eigi ekki fyrir henni. Ef svo er, er réttast að fyrirtækið lýsi fyrir gjaldþroti fremur en að taka út refsingu fyrir eigið ofbeldi á neytendum.

Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins er tekið fram að þeir sem hafa skaðast á þessum aðgerðum fyrirtækisins séu fyrst og fremst neytendur og bændur. Þetta er nokkuð merkilegt því fyrirtækið er í eigu bænda. Á næstu dögum kemur í ljós hvort eigendur fyrirtækisins og stjórn standi í lappirnar og beri til baka þessi ósvífnu ummæli forstjórans. Að öðrum kosti er ljóst að MS hefur skaðað orðspor sitt til langrar framtíðar.

 

Comments

comments