Nú í aðdraganda kosninga eru margir af hinum ofurhlutlausu fréttamönnum fjölmiðlanna að setja sig í stellingar. Svona þeir sem ekki eru þegar komnir í framboð. Það gladdi án efa marga þegar netmiðillinn Kjarninn tilkynnti hátíðlega að hann væri að hefja starfsemi Staðreyndarvaktarinnar. Um það segir í frétt Kjarnans:

,,Á staðreyndavaktinni verða fullyrðingar stjórnmálamanna skoðaðar og sannleiksgildi þeirra kannað, en slíkt form fréttaskýringa er að ryðja sér til rúms víða um heim.“

Já víða um heim. Nú gætu reyndar sumir haldið að þetta væri hlutverk fjölmiðla öllum stundum, þ.e.a.s. þeir eigi alltaf að vera að kanna og rannsaka fullyrðingar sem hent er fram í umræðunni. Og af því að menn eru að vísa í að þetta sé orðið alsiða úti í heimi þá má geta þess að þar eru líka fjölmiðlar gera talsvert af því að kanna fullyrðingar annara fjölmiðla. Hér heima hefur netmiðillinn Andríki oft tekið að sér slíka staðreyndavakt á íslenskum fjölmiðlum við litlar vinsældir, meðal annars vegna fullyrðingar sem hafa birst í Ríkisútvarpinu og Kjarnanum og hefur svo ekki verið innistæða fyrir. En batnandi mönnum er best að lifa.

Til að gefa staðreyndavakt Kjarnans meira vægi hefur verið gerður samningur við Vísindavefinn um að Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor sjái um hin faglega hluta verksins.

Við hér á Veggnum viljum ekki láta okkar hlut eftir liggja og höfum því ákveðið að blása til okkar eigin staðreyndarvaktar.

En hvernig eru staðreyndir matreiddar í sjálfum Kjarnanum? Er það ekki eitthvað umdeilanlegt? Í fréttaskýringu um bónusa, sem birtist núna um leið og tilkynnt er um staðreyndavaktina, er eftirfarandi klausa:

,,Í stað 39 prósent stöðugleikaskatts, sem átti að skila 850 milljörðum króna fyrir frádrátt, mun ríkið fá 384,3 milljarða króna í stöðugleikaframlag. 288,2 milljarðar króna af því eru vegna viðskiptabankanna Íslandsbanka og Arion banka, sem þó liggur ekkert fyrir um hvers virði séu. Þessi upphæð getur því lækkað mikið.“

Eru þetta nú allar staðreyndir málsins? Er ekki augljóst að stöðugleikaskattur og stöðugleikaframlag eru sitthvor hluturinn? Er sanngjarnt að segja að í stað þess að fá 850 milljarða fái skattgreiðendur bara 384,3 milljarða og það jafnvel með afföllum? Allir sem fylgdust með málinu skildu muninn á stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlagi. Skatturinn var sú kylfa sem allir vildu forðast enda átti hann eingöngu að koma til ef annað um þryti. Og var ekki vandalaus aðgerð í eðli sínu vegna lögfræðilegra álitaefna. Stöðugleikaskilyrðin, sem nú hafa verið samþykkt, voru hins vegar klæðskerasaumuð að þörfum þjóðarbúsins og hafa gefið hagkerfinu færi á að vaxa og dafna.

Þá verður að hafa í huga að mótvægisaðgerðir vegna stöðugleikaskilyrða voru taldar nema samtals yfir 850 milljörðum króna miðað við matsverð þegar aðgerðirnar voru kynntar fyrri rúmu ári síðan. Mikilvægt er að hafa í huga að um var að ræða mótvægi vegna aðsteðjandi greiðslujafnaðarvanda en ekki nema að hluta til beinar greiðslur til ríkissjóðs. Mótvægið fékkst með framsali eigna til ríkisins, fjársópsákvæðum, útgáfu skuldabréfa, afkomuskiptasamningum, breytingu innlána í skuldabréf, ráðstöfun innlendra fjármuna slitabúanna í innlendan rekstrar­kostnað og endurfjármögnun lána. Engin eign er skilin eftir. Hver einstök eign slitabúanna á sér mótvægi í lausn stjórnvalda. Greiðslur til ríkisins vegna aðgerða stjórnvalda voru taldar nema samtals tæpum 500 milljörðum króna miðað við  matsverð. Hagur þjóðarbúsins vænkast hins vegar mun meira vegna afnáms hafta eins og hefur komið á daginn.

Skatturinn hefði gefið um 620 milljarða í ríkissjóð við þáverandi gengi þegar búið er að taka tillit til fullnýtingar frádráttarliða frá skatti. Gengisþróunin hefur hins vegar verið þannig að hann hefði orðið enn lægri. Af þessu sést að það er fráleitt að jafna saman stöðugleikaskatti upp á  850 milljarða króna og stöðugleikaframlagi upp á 384,3 milljarða. Að þessu leyti fellur Kjarninn á staðreyndaprófinu.

Comments

comments