Viðar Garðarsson skrifar:

Myndin hér að ofan sem fengin er frá International Herald Tribune lýsir vel þeirri stemningu sem nú ríkir á íslandi. Mjög mikil flótti úr landi með fjármagn varð á árunum fyrir hrun. Það varð fertugföldun á fjölda aflandsfélaga í eigu Íslendinga á árabilinu 1999 til 2008. Í árslok 2007 voru 56% eigna í Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar í eigu aflandsfélaga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslunni „Eignir Íslendinga á aflandssvæðum“ sem nýverið var gefin út af fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Á þessu tímabili varð það nánast að þjóðaríþrótt að koma peningum úr landi. Bankar sem nýlega höfðu fengið frelsi hömuðust við að koma fjármagni þeirra sem höfðu efnast eitthvað út úr landinu, í skjól svo ekki þyrfti að greiða af þessu fé skatta og skyldur til þjóðfélagsins. Skipti þá engu hvort um var að ræða smáar, stórar eða verulegar upphæðir. Allir ætluðu að efnast á því að eiga hlutafé í bankakerfinu og senda fé á felureikninga úr landi.

Einn helsti hvatinn að baki þessum fjármagnsflutningum er skattasniðganga. Á því er engin vafi. Þær þúsundir einstaklinga sem fluttu fé úr landi á aflandsreikninga með aðstoð íslensku bankanna töldu sig hafa greitt nægilega mikið til samfélagsins og vildu með þessu æfingum komast hjá því að greiða það sem keisarinn vildi fá.

Ljóst er að verulegir fjármunir eru í eigu Íslendinga erlendis. Skýrsluhöfundar telja að þessar eignir séu um 580 milljarðar króna eða ríflega fjórðungur úr landsframleiðslu.

Ekki leikur vafi á því að skráning eigna á aflands- og lágskattasvæðum til þess að forðast eðlileg skattskil og tryggja leynd er andstæð hagsmunum alls almennings og hefur í för með sér margvíslegan óbeinan skaða fyrir samfélagið.

Eitt mesta deilumál allra tíma snýst um það í hvaða mæli hver og einn eigi að greiða keisaranum það sem keisarans er. Deilan snýst ekki um kaup og kjör heldur hve stóran hlut hverjum og einum er gert að greiða til samfélagsins af því sem hann aflar. Í áratugi hafa stjórnvöld dundað sér við að svara óhófi og bruðli í opinberum rekstri með aukinni skattlagningu á þegnanna, þessar lagabreytingar hafa oftar en ekki hafa gengið fram af þegnunum og ýtt undir sniðgöngu á öllum sviðum.

Öll þekkjum við þetta með einum eða öðrum hætti. Hér er, og hefur verið lengi tvöfalt hagkerfi, opinbera hagkerfið og svarta hagkerfið sem innifelur m.a. eignir þeirra sem eru með fjármuni sína í felum í skattskjólum. Lafferkúrfan (einnig stundum nefnd ferill Laffers) er notuð til að skýra teygni á milli skatttekna og skattprósentu. Það var hagfræðingurinn Arthur Laffer sem setti fram þá kenningu að við ákveðna skattprósentu næst hámark skattekna. Samkvæmt þessari kenningu getur of mikil ásælni hins opinbera í skattfé haft þau áhrif að skatttekjur minnka. Hvati til aukinnar vinnu hverfur og skattasniðganga eykst.

En þjóðin er líka ósátt við skattalega mismunun þegnanna og þessi tilfinning um skattalegt óréttlæti ýtir á fólk að sniðganga skattheimtu, ýtir á fólk að stunda svarta vinnu, og þannig heldur boltinn áfram að rúlla á ógæfuhliðina.

Mögulega er komin tími á að miðborgarstjórinn dragi upp úr pússi sínu hugmyndir sínar að flötu skattkerfi. Hann ásamt ýmsum öðrum aðilum hefur talað fyrir því að tekin verði upp flöt skattheimta á Íslandi. Sanngjarn flatur skattur sem leggst með sama hætti á alla þegna án tillits til þess hvaðan  féð er upprunnið er líklegri til þess að þjappa þjóðinni saman, frekar en að sundra. Flatur skattur er einnig líklegri til þess að koma í veg fyrir frekari aflandsvæðingu þjóðarinnar.

Comments

comments