Neytendasamtökin kynntu fyrir skömmu nýtt app, eða smáforrit, fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem er ætlað að safna og miðla upplýsingum um verðlag á dagvöru á Íslandi. Smáforritið heitir Neytandinn og á að gefa notendum betri yfirsýn yfir útgjöld heimilisins, efla verðvitund og stuðla að aukinni samkeppni verslana.

Gögnum er safnað af inn-kaupastrimlum notenda sem taka mynd af honum í gegnum forritið. Það myndgreinir strimilinn og les af þeim nafn verslunar, tímasetningu og vöruverð.

Fyrst um sinn verður aðeins unnið úr strimlum frá íslenskum dagvöruverslunum. Hver og einn getur skoðað gögnin á vefsvæðinu Neytandinn.is. Þar er hægt að gera verðsamanburð og leita að einstökum vörum auk þess sem notendur geta haldið utan um eigin innkaup í gegnum forritið, enda geymir það myndir og upplýsingar af öllum strimlum sem hver neytandi setur inn.

Neytandinn er til fyrir bæði iPhone og Android og er hægt að nálgast appið í gegnum App Store og Google Play. Það er ókeypis og ekki er greitt fyrir aðgang að eigin upplýsingum né grunnverðlagsupplýsingum.

Comments

comments