Geiningardeild Íslandsbanka sendi frá sér nýja skýrslu um Íslenska ferðaþjónustu fyrir árið 2017. Þar vekur einna mesta athygli gríðarlegur vöxtur á skammtímaleigu íbúða í gegnum Airbnb og möguleg áhrif þessa vaxtar á íbúðaverð í borginni.

Þegar einungis er horft til heimila sem voru í útleigu í gegnum Airbnb og nýtingu þeirra í hverjum mánuði má áætla fjölda íbúða sem voru í leigu á Airbnb öllum stundum eftir mánuðum. Að meðaltali voru um 300 íbúðir í útleigu öllum stundum á Airbnb á árinu 2015 og um 809 á árinu 2016. Er þetta aukning um 509 íbúðir en til samanburðar voru byggðar 399 íbúðir í Reykjavík

á árinu 2016. Fjölgun íbúða í heilsársútleigu á Airbnb hefur því verið talsvert umfram fjölgun nýrra íbúða í Reykjavík yfir sama tímabil og þannig átt stóran þátt í mikilli hækkun íbúðaverðs á svæðinu. Þess má geta að í ágúst á árinu 2016 náði fjöldi íbúða á Airbnb hámarki í um 1.225 íbúðum og er það um 131% fjölgun frá því í sama mánuði á árinu 2015 þegar fjöldinn var 531.

Heildartekjur vegna útleigu gistirýma á Airbnb námu um 6,76 mö.kr. á árinu 2016. Til samanburðar námu tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu um 19,6 mö.kr. Tekjur gistirýma á Airbnb í Reykjavík námu því rúmlega þriðjungi (35%) af tekjum hótela á höfuðborgarsvæðinu til samans.

Tekjur vegna gistirýma á Airbnb í Reykjavík námu um 2,51 ma.kr. á árinu 2015 og jukust heildartekjur því um 4,25 ma.kr. á milli ára eða um 169%. Skýrist þetta af því að rúmlega tvöfalt fleiri gistirými voru að jafnaði leigð út á árinu 2016 og voru þau einnig leigð út oftar og í lengri tíma í senn.

Ef gert er ráð fyrir að öll rými á Airbnb séu fullnýtt hvað fjölda næturgesta varðar er hægt að áætla heildarframboð seldra gistinátta. Slíkir útreikningar benda til að framboð seldra gistinótta á Airbnb hafi aukist um 179% á milli áranna 2015 og 2016. Á sama tíma jukust seldar gistinætur hótela á höfuðborgarsvæðinu um 30%. Gistiþjónusta í gegnum Airbnb hefur því vaxið umtalsvert umfram alla aðra gistiþjónustu sem stendur ferðamönnum til boða á Íslandi.

 

Comments

comments