Framsóknarmenn í Eyjafirði skora á formann og forystu Framsóknarflokksins að boða sem allra fyrst til flokksþings. Staða flokksins sé óviðunandi í ljósi úrslita síðustu alþingiskosninga og almennir flokksmenn einir geti höggvið á hnútinn.
Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem framsóknarfélög lýsa áhyggjum sínum af stöðu flokksins. Framsóknarfélag Mosfellsbæjar tók í sama streng í ályktun fyrir skemmstu og hvatti þá forystu flokksins til að íhuga alvarlega hvort hún sé fær um að leiða flokkinn.

Síðan kom ályktun frá Framsóknarfélagi Reykjavíkur í gær að mikilvægt væri að ræða innra starf flokksins, stöðu hans, framtíð og fyrirætlanir. Öllum sé ljóst að staða flokksins er slæm og brýnt að bæta samvinnu og einingu innan hans.

„Flokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum og því augljóst að gefa þarf félagsmönnum rými og tíma til að ræða stöðuna og til að auka samvinnu og traust flokksins á ný. Félagið skorar á framkvæmdastjórn flokksins að endurskoða dagskrá og innihald vorfundarins og stuðla að sátt og samvinnu meðal félagsmanna, enda er miðstjórnarfundi ætlað að vera samræðuvettvangur,“

Segir í ályktuninni.

Ljóst er að staða forystu Framsóknarflokksins er afar veik um þessar mundir og líklegt er að látið verði sverfa til stáls á væntanlegum miðstjórnarfundi sem boðaður hefur verið 20. maí næstkomandi.

Hér fyrir neðan er ályktun Framsóknarfélags Reykjavíkur í heilu lagi.

ÁLYKTUN STJÓRNAR FRAMSÓKNARFÉLAGS REYKJAVÍKUR

Á vorfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem haldið verður 20. maí er ætlað að vinna með menntastefnu flokksins og fara í sérstaka hópavinnu samhliða fundinum. Í þetta fer mikill tími.

Framsóknarfélag Reykjavíkur telur mikilvægt að ræða innra starf flokksins, stöðu hans, framtíð og fyrirætlanir. Það er öllum ljóst að staða hans er slæm og brýnt að bæta samvinnu og einingu innan flokksins. Félagið telur það glapræði að missa af því tækifæri sem miðstjórnarfundur getur nýst í í því sambandi.
Flokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum og því augljóst að gefa þarf félagsmönnum rými og tíma til að ræða stöðuna og til að auka samvinnu og traust flokksins á ný.
Félagið skorar á framkvæmdarstjórn flokksins að endurskoða dagskrá og innihald vorfundarins og stuðla að sátt og samvinnu meðal félagsmanna, enda er miðstjórnarfundi ætlað að vera samræðuvettvangur.

Comments

comments