Donald Trump hefur verið kjörinn forseti Bandaríkjanna en hann bar sigurorð af Hillary Clinton. Talning atkvæða í nótt var æsispennandi og þvert á það sem fyrirfram var talið þá tók Trump fljótlega forystu og vann að lokum sigur.

Það vekur athygli eftir atburði næturinnar að kannanir voru langt frá því að ná utan um þennan sigur Trump. Fjölmiðla umræða var mjög einsleit og sérstaklega hér á landi þar sem Trump hefur nánast verið stimplaður fáráður og hættulegur maður. Það má segja að í Bandaríkjunum hafi tekist á spillt valdaklíka sem Hillary Clinton var birtingarmynd fyrir og grasrót fólks sem er búin að fá nóg af brölti valdaklíkunnar sem Trump er fulltrúi fyrir. Í raun má segja að sigur Trump í nótt hafi verið Ameríska útgáfan af sigri Jóns Gnarr og Besta flokksins. Sigur óánægðra kjósenda gegn stjórnkefinu.

Skilaboð Trump til Bandarískra kjósenda voru einföld. Hann sagði:

„Við erum hinn þögli meirihluti. Sýnum heiminum það. Þessi barátta snýst um hvort bandaríska þjóðin lifir af, nú er síðasta tækifærið til að bjarga henni. Í ár segja Bandaríkjamenn: Hingað og ekki lengra. Í ár ná þeir landinu til baka úr höndum stjórnmálamanna, elítunnar, hnattvæðingarsinna, spillingarlýðsins.“

Þessi skilaboð áttu greinilega frjóan jarðveg í óánægju fólks. Kjósendur höfnuðu meintri spillingu í Washington. Þeir höfnuðu Obamacare, sjúkratryggingakerfinu sem Trump hyggst afnema. Þeir höfnuðu hnattvæðingu og alþjóðlegum fríverslunarsamningum. Trump vill rétta viðskiptahalla Bandaríkjanna við útlönd af, taka upp tolla og koma í veg fyrir að fólk og fyrirtæki fari úr landi. Hann segir að Bandaríkin hafi fyrir tilstilli fríverslunarsamninga tapað 50 þúsund verksmiðjum og þriðjungi framleiðslustarfa og stjórnvöld í Kína nauðgi Bandaríkjunum með því að halda gengi sínu lágu. Þá höfnuðu kjósendur  fjölmenningarsamfélaginu. Hugmyndir Trumps um að reisa vegg við landamæri Mexíkó og á sama tíma vísa þremur milljónum ólöglegra innflytjenda úr landi benda til þess. Þá hefur hann sagst ætla að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.

Ljóst er flest bendir til þess að miklar breytingar verði á Bandarísku samfélagi og samskiptum þess við önnur ríki.

Comments

comments