brotnir_staurar-3 high_voltage_cables2

Óveðrið síðasta mánudag og allar þær rafmagnstruflanir sem urðu í kjölfarið kalla á heildar endurskoðun á lagningu raforkulína. Nokkuð tjón var á línumannvirkjum og ljóst er að burðarlínur eins og fyrirhuguð Sprengisandslína hefðu átt undir vök að verjast í þeim veðurofsa sem small á landinu.  Í þessu austanáhlaupi hefði loftlína um endilangan Sprengisand staðið þvert á vindstefnu og átt erfitt uppdráttar ef samspil lofthita og úrkomu hefði leitt af sér ísingu. Í þessu óveðri biluðu margar loftlínur Landsnets með tilheyrandi vandræðagangi og rafmagnsleysi. Spurning er hvort ekki þurfi að auka orkuöryggi fyrir almenning með jarðstrengjum, en leysa stórflutninga til iðjuvera með loftlínum.

Frakkar fengu yfir sig mikið ísingaveður árið 2003 sem kostaði alllangt rafmagsleyi milljóna manna. Í kjölfarið fór Franska „landsnetið“ RTE að leggja meira af háspenntum jarðstrengjum. Var það gert til að koma í veg fyrir það algera kerfishrun sem varð þegar loftlínurnar brustu og einnig til að koma til móts við auknar umhverfiskröfur.

Það er athygli vert að loftlínurnar beggja megin Akureyrar gáfu sig í veðrinu og Akureyri var rafmagnslaus. Alþekt er að Landsnet hefur barist hatrammlega gegn því að nýjar línur verði að einhverju leyti lagðar í jörð og með þeirri þvermóðsku siglt málum fyrir norðan í strand. Bæjarbúum var ekki skemmt á mánudaginn þegar rafmagnið fór af bænum. Til að bíta höfuðið af skömminni þá seldi Landsvirkjun í fyrra 7MW vararafstöð sem staðsett var á Akureyri en hún kom að góðu gagni þegar loftlínur hrundu umvörpum í ísingarveðri í september 2012. Núna 2015 var ekkert varaafl að hafa. Þannig hefur þjónusta við Akureyringa versnað eftir uppskiptingu Landsvirkjunar og Landsnets. Að sögn heimildarmanna Veggsins hafa segjast bæjarbúar ekki hafa lifað jafn mikla óvissutíma í raforkuafhendingu síðan á sjöunda áratug síðustu aldar þegar reglulega þurfti að grípa til rafmagnsskömmtunar.

Íbúar NA-lands eru ósáttir og þykir þeim það ekki ásættanlegt að í foráttuveðri með slæmri spá þá fari allt útvarp af RÁS1 og RÁS2 og Bylgjunni – og símkerfið fari í þann hægagang að ekki sé mögulegt að sækja sér upplýsingar eftir þeirri leið. Hér er fólk að uppgötva að það býr við afar lítið almannaöryggi ef rafmagnið fer og samskiptakerfin hrynja í vondum veðrum eða annars konar hamförum segir heimildarmaður Veggsins.

Ljóst má vera að hér þarf að taka upp nýja stefnu og stórauka lagningu á jarðstrengjum, það er eina raunhæfa leiðin til þess að auka orkuöryggi til almennings og taka með því ákveðið skref til móts við auknar umhverfiskröfur.

Comments

comments