Samkvæmt frétt sem birtist í Morgunblaðinu í morgun fóru fimm Íslendingar í liðskiptaaðgerð í Svíþjóð í gær. Þessar aðgerðir hefði verið hægt að framkvæma hér á landi í Klínikinni í Ármúla fyrir brot af þeim kostnaði sem þetta brölt til Svíþjóðar kostar þjóðina.

Þar sem allir þessi sjúklingar uppfylltu svokallað biðtímaákvæði í tilskipun EES sem leyfr sjúklingum að fara í aðgerð á sjúkrahúsi innan EES ef óvenjulega löng bið hefur verið eftir aðgerð. Sjúkratryggingar Ísland greiða allan sjúkrakostnað, ferða- og uppihaldskostnað ásamt kostnaði fyrir fylgdarmann ef þess er þörf.

Þjóðin er hér látin greiða stóraukin kostnað vegna dugleysis og undirlægjuháttar kjörinna fulltrúa, sér í lagi núverandi heilbrigðisráðherra sem ekki hefur viljað opna á þann möguleika að Sjúkratryggingar Íslands geri samstarfssamning við Klíníkinna eða hvern annan þann aðila sem hefur áhuga, menntun og vilja til þess að veita þessa þjónustu. Sorglegt hefur verið að sjá ráðherrann beygja sig undir vinstri rétttrúnaðar valtarann.

Katrín Jakobsdóttir
mynd: VG

Þau rök sem helst hafa verið sett fram er þau að ekki sé boðlegt að einkaaðilar geti greitt sér arð ef fyrirtæki þeirra er vel rekið. Katrín Jakobsdóttir formaður VG sagði í ræðu á Alþingi fyrir nokkrum dögum.

„Hæstv. forsætisráðherra mætti hins vegar í viðtali á sunnudag og lýsti þeirri skoðun sinni að það væri fullkomlega eðlilegt að greiða arð út úr heilbrigðisþjónustu og annarri velferðarþjónustu. Því ekki? sagði hæstv. ráðherra, sem er auðvitað hans svar við risastórri pólitískri og siðferðislegri spurningu um hvort eðlilegt sé að einkaaðilar hagnist á sjúkdómum fólks. Mitt svar við því er algjörlega skýrt: Það er hvorki rétt né skynsamleg nýting á almannafé að skattfé eða sjúklingagjöldum sé varið til greiða fólki arð.“

Katrín verður að svara þeirri spurningu hvort það að senda fólk til Svíþjóðar á einkasjúkrahús (sem greiðir eigendum sínum arð ef vel gengur), fyrir umtalsvert meira fé en ef aðgerðirnar hefðu verið framkvæmdar hér á landi, sé skynsamleg nýting á almannafé eða skattfé.

Allir hljóta að sjá að þetta nær ekki nokkurri átt og þessum málatilbúnaði verður líklega best lýst með því að kenna hann við stórmennið Ragnar Reikás, enda fyrirmyndin af honum sprottin úr sama jarðvegi.

Ef einkaframtak getur sparað þjóðinni stórfé með þjónustu sinni er því skattfé vel varið og engu skiptir þó að einkaaðilinn geti vegna dugnaðar síns og útsjónasemi á endanum greitt sér út smá arð.

Comments

comments