Mikið er um lokanir gatna í Reykjavík um þessar mundir. Miklabraut, hluti Laugavegs, Skólavörðustígur og svæði kringum Hafnartorg svo fátt eitt sé nefnt.  Þessar lokanir hafa þau áhrif að mjög erfitt er með alla umferð til og frá miðborgarsvæðinu. Gríðarlegar umferðarteppur hafa myndast og fyrir þá sem hafa lent í þeim þá silast þær áfram og ná vart gönguhraða.

Þetta hefur leitt athygli að öðru máli sem er staðsetningin á Landspítalanum á hringbrautarsvæðinu. Í raun má segja að engin leið að þjóðarsjúkrahúsinu sé greið í þessu ástandi. Var gert áhættumat á þessum lokunum? Hvað hefur ferðatíminn frá hverfum í austurborginni líkt og Breiðholti eða Grafarvogi niður að Landspítala lengst mikið á álagstímum síðustu daga? Hver ber á því ábyrgð ef ekki verður hægt að koma sjúklingi undir læknishendur í tíma vegna umferðartafa?

Borgarbúar sjá nú í hnotskurn hvernig stefna Samfylkingarinnar að gera umferð bifreiða torveldari um miðborgina kemur fram. Niðurstaðan getur bara verið á einn veg. Byggja verður nýtt þjóðarsjúkrahús á öðrum stað en við Hringbraut.

 

Comments

comments