Stóra skólpmálið í vesturbænum hefur á margan hátt verið afar fróðlegt fyrir borgarbúa. Þannig hefur það dregið fram að embættismenn og kjörnir fulltrúar borgarinnar telja það algeran óþarfa að upplýsa almenning um það ef eitthvað fer úrskeiðis innan borgarkerfisins. Ljóst er í dag að umrædd bilun hefur verið vandamál lengur en 10 daga eins látið var í veðri vaka í upphafi. Nú er skyndilega farið að tala um að þetta ástand hafi varað yfir í allt að mánuð án þess að nokkur hafi verið látin vita. Alla vega koma kjörnir fulltrúar borgarinnar nú fram hver í kapp við annan og halda því fram að þeir hafi fyrst heyrt af þessu í fjölmiðlum.

Ljóst er af þessu máli að ekki einungis eru fjármál borgarinnar í algerum ólestri heldur er embættismannakerfið ekki starfi sínu vaxið og samskipti þeirra á milli í tómu rugli. Innan borgarkerfisins virðist hver og einn lifa í eigin sápukúlu og ekki undir neinum kringumstæðum telja það hlutverk sitt að upplýsa borgarbúa eða aðra embættismenn um nokkuð það sem gæti verið óþægilegt eða viðkvæmt.

Ef borgarkerfið væri í lagi hefðu Veitur strax átt að upplýsa heilbrigðisfulltrúa að mögulega gæti mengun á fjörum farið fram úr viðmiðunarmörkum. Veitur og heilbrigðisfulltrúinn hefðu átt að upplýsa yfirmann borgarinnar borgarstjóra og borgin og upplýsingakerfi hennar hefði átt að upplýsa almenning um að bilun væri í kerfinu og vonandi tækist sem fyrst að komast fyrir hana. Síðan hefði átt að vera stöðug upplýsingagjöf um framvindu málsins ásamt upplýsingum til borgarbúa um það hvenær óhætt væri að njóta náttúrufegurðar strandlengjunnar í Reykjavík á ný.

Nú hefur þetta mál verið nánast óslitið í fjölmiðlum síðustu daga. Flestir embættismenn hafa látið sig hverfa og telja að þeir beri ekki neina ábyrgð á því hvað gerðist. Benda frekar á einhvern annan og segja hann vissi þetta og átti að láta vita. Það er merkilegt að það sé allt í einu farið að skipta máli hver vissi hvað og hvenær. Það eina sem skiptir máli úr því sem komið er, er að æðsti embættismaður borgarinnar komi fram fyrir hönd starfsmanna sinna og kjörinna fulltrúa og biðji borgarbúa afsökunar á þeim mistökum sem gerð voru. Málið verði tekið til skoðunar og reynt að læra af mistökum sem gerð voru varðandi upplýsingagjöf til almennings.

Eitt af því sem Dagur hefði þurft að læra af Jóni Gnarr var að koma fram auðmjúkur og biðjast afsökunar. Þetta gerði Jón Gnarr ítrekað. Hann steig fram og tók til sín vandamálið og auðmjúkur viðurkenndi misbresti í kerfinu  og varð fyrir bragðið einn af betri borgarstjórum Reykjavíkurborgar. Núna næstum viku eftir að málið kom upp hefur núverandi borgarstjóri ekki látið sér detta í hug að biðja borgarbúa afsökunar á þeim mistökum sem gerð hafa verið. Með því sýnir hann borgarbúum bæði hroka og yfirlæti.

Comments

comments