Í janúar 2016 samhliða endurskoðun á kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði sömdu ASÍ og SA um aukið framlag í lífeyrissjóði upp á 3,5% sem átti að koma í þremur áföngum. Fyrsta hækkunin kom 1. júlí 2016, næsta hækkun kom 1. Júlí 2017 og sú síðasta kemur 1. júlí 2018 eða samtals eins og áður sagði 3,5%.

Í endurskoðuninni í janúar 2016 er skýrt kveðið á um að einstaklingar eigi að hafa val um að geta sett þetta viðbótar framlag upp á 3,5% í bundna séreign eða í samtrygginguna.

Það sem síðan gerist er að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands óska eftir því við lífeyrissjóðina að þeir haldi aukaaðalfundi þar sem reglugerðum sjóðanna var breytt þannig að búin var til ný séreign, svokölluð tilgreind séreign. Samtök atvinnulífsins, ASÍ og lífeyrissjóðirnir héldu því síðan fram að með þessari breytingu á reglugerðum sjóðanna hefði launafólk ekki kost á að velja sér annan vörsluaðila en lífeyrissjóðina eða með öðrum orðum, launafólki átti að vera skylt að setja aukið framlag í séreign í þessa tilgreindu séreign og það bara hjá lífeyrissjóðunum.

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi á Akranesi gerði á aukaaðalfundi í Festu lífeyrissjóðs alvarlegar athugasemdir við þessa reglugerðarbreytingu og meðal annars sagði að ekki væri lagastoð fyrir því að skylda launafólk til að greiða einungis til lífeyrissjóðanna hvað þessa séreign varðar. Hann benti líka á að það væri mjög óeðlilegt að setja þrengri skorður á þessa tilgreindu séreign en gildir um hina hefðbundnu séreign, meðal annars gagnrýndi Vilhjálmur þessa forræðishyggju hjá Samtökum atvinnulífsins og forystu ASÍ um að þessa séreign mætti ekki nota til að greiða niður fasteignaskuldir né byrja að taka hana út fyrr en 62 ára en ekki 60 ára eins og gildir um hina hefðbundnu séreign. Þessu til viðbótar spurði Vilhjálmur á þessum aukaaðalfundi hvort þessi nýja tilgreinda séreign sem lífeyrissjóðirnir væru að setja á laggirnar samkvæmt fyrirmælum frá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ yrði skerðingarhæf frá Tryggingastofnun. Svarið sem hann fékk á fundinum var að já, til stæði að hún yrði skerðingarhæf. Á þessum forsendum greiddu fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness atkvæði gegn þessum breytingum enda með hreinustu ólíkindum hvernig staðið var að þessu máli og óskiljanlegt líka af hverju launafólk ætti ekki að fá að velja sinn séreignasjóð sjálft.

Núna hefur Fjármálaeftirlitið með bréfi til lífeyrissjóðanna sem birtist á síðasta föstudag allt verið staðfest sem Vilhjálmur hélt fram á aukaaðalfundinum. Það er ekki lagastoð fyrir því að þvinga launafólk til að setja þetta auka framlag í þessa tilgreindu séreign einungis til lífeyrissjóðanna heldur hefur launafólk val um að ráðstafa séreignarhluta iðgjaldsins til hvaða aðila sem sér um að taka við séreignargreiðslum. Það er rétt að vekja athygli á því að í bréfinu frá FME fá lífeyrissjóðirnir, SA og ASÍ verulegar ákúrur og er það vægt til orða tekið en þar segir meðal annars:

„Vegna villandi fréttaflutnings og upplýsinga á heimasíðum lífeyrissjóðanna þess efnis að sjóðsfélögum beri að ráðstafa iðgjaldi til tilgreindrar séreignar til sama lífeyrissjóðs og tekur við iðgjaldi vegna samtryggingar, telur Fjármálaeftirlitið rétt að vekja athygli á þeim reglum sem gilda um rétt sjóðsfélaga til að ráðstafa iðgjaldi sem renna skal til séreignar.“

Með þessu bréfi er fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og lífeyrissjóðunum skellt á lærið og þeir rassskelltir hressilega af FME segir Vilhjálmur í grein sem hann ritar á Pressunni.

 

Comments

comments