Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar 2016 var lagður fram í bæjarráði Hafnarfjarðar í dag.Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt ársreikningi A og B hluta, var jákvæð um 538 milljónir króna og A hluta jákvæð um 27 milljónir króna. Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstrinum og annar rekstrarkostnaður helst nánast óbreyttur frá fyrra ári eða rúmlega 7,4 milljarðar króna þrátt fyrir verðlagshækkanir. Útboð á ákveðnum þjónustuþáttum eru m.a. að skila þessum árangri.

Skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar hefur ekki verið lægra síðan 1992 og voru engin ný lán tekin á árinu 2016 þrátt fyrir fjárfestingar m.a. í nýjum leikskóla. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins er jákvæð um 538 milljónir króna á meðan ársreikningur 2015 sýndi neikvæða rekstrarniðurstöðu um 512 milljónir króna. Breytt forgangsröðun og hagræðingar í kjölfar rekstrarrýni á árinu 2015 er að skila væntum árangri og um að ræða tímamót í rekstri Hafnarfjarðarbæjar.

  • Algjör viðsnúningur hefur orðið í rekstri Hafnarfjarðarbæjar – úr halla í afgang
  • Skuldaviðmið komið undir 150% – bærinn losnar undan eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga
  • Skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar var 169,6% í árslok 2016 samanborið við 194% í árslok 2015 og hefur ekki verið lægra í aldarfjórðung eða frá árinu 1992
  • Rekstrarkostnaður nánast óbreyttur á milli ára

Ekki er langt síðan Hafnarfjörður var eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og þurfti að sæta því að fara undir eftirlit Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Vel gert Hafnfirðingar!

Comments

comments