Fyrstu kosningar ungs fólks verða í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Ungmennaráð óskaði eftir að gera tilraun til að halda skuggakosningar til að auka lýðræðisvitund ungs fólk í sveitarfélaginu. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti beiðni ungmennaráðs sveitarfélagsins að halda skuggakosningar samhliða næstkomandi forsetakosningum.

Rannsóknir benda til að ungt fólk sem kýs snemma á ævinni er líklegra til að taka þátt í kosningum í framtíðinni.
Bæjarstjórn samþykkti reglur um kosningarnar þar sem ungmennaráð hefur yfirumsjón með skuggakosningunum í samráði við yfirkjörstjórn sveitarfélagsins. Ráðið tilefnir þrjá aðalmenn í kjörstjórn og þrjá til vara.
Ungmennaráð mun standa fyrir kynningum um kosninguna og frambjóðendur forsetakosninganna í skólum sveitarfélagsins og með því að senda út kynningarefni sem höfðar til ungs fólks. Leitast verður við að hafa skuggakosningarnar eins líka og almennu forsetakosningarnar og verða þær haldnar á sömu stöðum og almennu kosningarnar en kjörseðlar verða ekki í sama lit.
Ungmennaráð hefur hafið undirbúning að kosningunum og mun halda kosningavöku sem haldin verður í Nýheimum. Á kosningavökunni verða úrslit kosninganna kynnt ásamt því að Emmsjé Gauti skemmtir gestum.
Ungmennaráð hvetur ungmenni í sveitarfélaginu til að taka þátt í kosningunum og sýna fram á að ungt fólk lætur sig málin varða með því að taka þátt í tilraun til aukinnar lýðræðislegrar vitundar ungs fólks.

Þetta er frábært framtak hjá Birni Inga Jónssyni bæjarstjóra og hans fólki í bæjarstjórn að taka upp samstarf við þetta unga fólk. Mjög áhugavert verður að fylgjast með útkomunni og vonandi fá þessi duglegu ungmenni athygli frá þeim fjölmiðlum sem koma til með að halda úti kosningavökum.

Comments

comments