Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bendir á það á feisbúkksíðu sinna að nú séu 7 þingfundardagar eftir fram að þingslitum og enn séu helstu staðreyndir um yfirtöku vogunarsjóða á stærsta banka landsins á huldu. Það eigi bæði við um hvernig að þessu var staðið og hvers sé að vænta. Bendir hann á að þingsályktunartillaga um nýtingu forkaupsréttar ríkisins virðist ekki einu sinni eiga að fá að sofna í nefnd eins og aðrar óþægilegar tillögur. Hún hafi bara verið látin hverfa og atburðarásin sem stjórnvöld hafi lýst í upphafi standist ekki og enn eigi eftir að svara spurningum sem hann rekur í færslu sinni.

Færslan er birt hér óstytt.


Nú eru 7 þingfundardagar eftir fram að þingslitum og enn eru helstu staðreyndir um yfirtöku vogunarsjóða á stærsta banka landsins á huldu. Það á bæði við um hvernig að þessu var staðið og hvers er að vænta.

Þingsályktunartillaga um nýtingu forkaupsréttar ríkisins virðist ekki einu sinni eiga að fá að sofna í nefnd eins og aðrar óþægilegar tillögur. Hún var bara látin hverfa.

Atburðarásin sem stjórnvöld lýstu í upphafi stenst ekki og enn á eftir að svara spurningum á borð við:

-Veittu stjórnvöld heimild til að styðjast við gamalt uppgjör bankans og sniðganga þannig forkaupsrétt ríkisins?

-Ef forkaupsréttur er ekki lengur virkur hver tók þá ákvörðun um að falla frá honum fyrir hönd ríkisins?

-Komið hefur fram að kauptilboð vogunarsjóðanna var með fyrirvörum. Hverjir voru þeir? Snéru þeir að því að stjórnvöld myndu aflétta höftum af aflandskrónum? Ræddu íslensk stjórnvöld við vogunarsjóðina um að losa höft og falla frá forkaupsrétti svo að sjóðirnir gætu fært bankann til sín á lágmarksverði (á kostnað ríkisins)?

-Eru stjórnvöld einhverju nær um hverjir standa á bak við kaupin og í hvaða tilgangi?

-Tímalínan sem dregin var upp stenst ekki. Tilboð um kaupin virðist hafa verið samþykkt 12. febrúar en það var fyrst upplýst um það (með þátttöku tveggja ráðherra) 19. mars. Var markaðurinn blekktur um raunverulegt eignarhald í 5 vikur?

Spurningarnar varða framtíð íslenska fjármálakerfisins og tugmilljarða hagsmuni ríkissjóðs.

Á að bíða þar til of seint verður að gera nokkuð í málinu og láta nægja að skrifa um það rannsóknarskýrslu eftir 10-15 ár?

 

Comments

comments