Síðustu daga hefur verið nokkur umræða um hvort heimsóknir barna úr Grunnskóla í kirkjur landsins séu réttlætanlegar. Sigurður Guðmundsson kaupmaður skrifaði pistil á Facebook vegg sinn:

„Umburðarlyndi fyrir suma, ekki alla.

Jæja nú eru blessuð jólin að nálgast. Tími þar sem við getum æst okkur yfir því að börn eru flutt nauðug og grátandi í kirkjur landsins á skólatíma. Foreldrar viðkomandi barna fá joðsótt eða skyrbjúg í höfuðið af tilhugsuninni einni að þetta skuli geta gerst á tímum umburðarlyndis og fjölmenningar. Froðufella af vandlætingu og saka presta landsins um að troða trú upp á saklaus börnin. Þetta er auðvitað kjaftæði. Sömu foreldrar halda jól og gefa hvort öðru gjafir. Snýta sér svo í glanspappírinn á eftir og koma með þá skýringu að jólin séu heiðin siður og hafi ekkert með trú að gera. Horfa svo á Nightmare on Elm street á aðfangadag og trúa í alvörunni að Freddy Kruger sé maðurinn. Mikið er ég þreyttur á þeirri skýringu. Sl. nokkur hundruð ár hafa jólin verið tengd kristinni trú. Þetta er ekkert flókið. Helstu stuðningsmenn fjölmenningar og kyndilberar annarra trúarbragða eða trúleysis eiga ofboðslega erfitt að sætta sig við þetta. Halda áfram í hræsni sinni að gagnrýna kristna kirkju, þjóna hennar og meðlimi safnaða. Ég veit ekki hvenær er komið nóg. Einhverra hluta vegna á kristið fólk að vera umburðarlynt gagnvart öllu í kringum sig. Öðrum trúarbrögðum eða trúleysi en má aldrei verða þess aðnjótandi að fá að halda í sína siði og venjur án afskipta Siðmenntar eða annarra andstæðinga kirkjunnar. Þetta skil ég ekki og hef aldrei skilið. Hræsnin nær nýjum hæðum þegar jólin færast nær og nær okkur og gleðin á að vera á hverju horni. Nei, við skulum eina ferðina enn gera mál vegna heimsókna skólabarna í kirkjur landsins. Hvernig væri að þið hélduð að ykkur höndum, svona einu sinni. Hættið að röfla yfir þessum heimsóknum sem engan skaða. Þær koma flestum í gott skap og skapa stemmingu fyrir jólunum. Sú hátið var oftast kennd við börnin, sem þið eigið örugglega einhverjar fallegar minningar um úr ykkar eigin æsku. Hvað gerðist síðan veit ég ekki. En endilega látið þennan gleðilega og uppbyggjandi sið í friði.“

Helgi HrafnHelgi Hrafn fyrrum þingmaður Pírata stökk fram og andmælti Sigurði. Helgi Hrafn ritaði:

„Þú spyrð hvenær sé komið nóg. Ég skal bara svara því kýrskýrt þannig að þú þurfir aldrei framar að velta því fyrir þér: þegar trúboð verður aðskilið ríkinu og hlutverki opinberra stofnana.

Sjálfsögð krafa. En síðan virðast ríkiskirkjusinnar ekki mögulega geta gúdderað punktinn um að þetta snýst ekkert um jólahald, heldur trúboð. Það hefur enginn talað gegn jólahaldi barna í grunnskólum, né kennslu um trúarbrögð með sérstakri áherslu á kristni. Andstaðan er gegn trúboði og einungis trúboði.

Nú, það er auðvelt fyrir pistilhöfund að segja að flestir þessara aðila haldi sjálf upp á jólin; væntanlega, já. Enda snýst þetta ekkert um jólin, heldur trúboð.

Sömuleiðis er það ekki umburðarlyndi að samþykkja það að ein tiltekin trúarinnræting hafi sérstaka heimild (menningarlega eða lagalega) til þess að stunda trúboð gagnvart lögboðnu grunnskólastarfi sem öllu börnum er lögum samkvæmt að sækja.

Hinsvegar þarf sífellt að beygja umræðuna út í það að eitthvað fólk úti í bæ vilji ekki jól, eða telji kirkjuferðir hættulegar fyrir börnin. Þetta er bara ekki rétt. Málið snýst um trúboð, einungis trúboð og ekkert nema trúboð. Að setja foreldra í þá stöðu að þurfa að velja á milli trúboðs eða að aðskilja sín börn frá restinni af hópnum; ÞAÐ er það sem þetta snýst um.“

Sigurði var ekki skemmt við þessa sendingu frá Helga Hrafni og sakar hann Helga um það að vera einn þeirra sem stundar skoðanakúgun í þjóðfélaginu Sigurður ritar á aftur á Facebook vegg sinn og segir.

„Eitthvað hefur síðasti pistill minn farið fyrir brjóstið á mörgum sem er einkennilegt og skýrir hvers vegna fólki er farið að finnast erfitt að tjá sig eða hafa aðra skoðun en þeir sem hæst láta. Er það afar miður og er orðinn hnjóður á allri umræðu á Íslandi.

Réttsýna fólkið sem kveikir í kyndlum þegar einhver skarast við rétttrúnaðinn er allra verst. Gerir fólk hrætt með málflutningi sínum sem enginn þorir að svara án þess að nafn hans og persóna sé dregið í svaðið með stórkarlalegum yfirlýsingum að viðkomandi sé hitt eða þetta. Kennt við eitthvað orð sem endar á ismi sem er næsti bær við orðið hismi og á heima í ruslinu.

Einn af boðberum málfrelsis er fyrrum þingmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson. Hann sá sig knúinn til að svara þessum pistli. Snúa honum á hvolf og skilja ekki um hvað þetta snýst.“

 

Sigurður svaraði síðan Helga með þessum pistli.

„Þar sem þú sérð hlutina svona kýrskýrt með þínum þröngu gleraugum er ég hreinlega ekki sammála þér. Skilningur þinn á trúboði þjóðkirkjunnar er einfaldlega ekki réttur. Of víðtækur og í besta falli rangur. Ég get ekki með nokkru móti verið sammála þér hvernig þú hefur brugðist við þessari umfjöllun sem er víða í gangi þessa dagana. Fullyrðingaflaumurinn sem kemur frá þér er þér vart sæmandi. Það virðist sama hvar er drepið niður í málflutningi þínum að þessar og hinar fullyrðingar þínar eru þess valdandi að fólk hefur varla dug í sér til að svara þessum málflutningi þínum. Þú talar um trúboð sem er þín sannfæring þegar um kirkjuheimsóknir er að ræða. Persónulega er ég ekki sammála því að klukkustundar heimsókn sé orðið trúboð þegar nokkur lög og piparkökur er um að ræða. Orðnotkun þín oft á tíðum er með slíkum hætti að fólk leggur ekki í þig. Það mætti næstum kalla ofbeldi. Allt snýst þetta um huglægt mat.

Fyrir mér snýst þetta um umburðarlyndi gagnvart meginþorra fólks og barna. Það er trúfrelsi og málfrelsi á Íslandi. Vel má vera að einhverjum þyki þetta allt saman óþægilegt en það á við um marga aðra hluti sem eru í umræðunni. Hvort sem umræðan snýst um samkynhneigða, flóttamenn eða fólk af öðrum kynstofnum. Skaðlegast fyrir börnin er ekkert sem gerist á skólatíma, hvort heldur sem eru kirkjuheimsóknir eða umræða um samkynhneigð í grunnskólum landsins. Hættulegasta umræðan sem skaðar börnin okkar læra þau heima hjá sér. Frá foreldrum sínum sem innræta fordóma hjá börnum sínum með eigin hegðun og orðbragði. Svo væri nú kannski skemmtilegt að blanda því inn í umræðuna hvort fylgni sé á lélegri niðurstöðu PISA könnunar og afskipta foreldra af skólastarfi.

Þetta er að verða þreytt umræða. Ég steyti ekki hnefann út í loftið á móti þeim sem líkar ekki við þessar heimsóknir heldur var ég að benda á að umburðarlyndi er ekki fyrir alla.

Njóttu dagsins“

Comments

comments