Fréttamaðurinn Þorbjörn Þórðarson skrifar í gær leiðara í Fréttablaðið sem nefnist „Kótilettufólkið“. Leiðarinn hefur vakið nokkra athygli þar sem hann afhjúpar fordóma fréttamannsins gagnvart því sem er íslenskt og þjóðlegt. Fréttamaðurinn skrifar:

„Ef útlendingar hefðu ekki sest hér að og auðgað íslenskt samfélag þá væru bara amerískir skyndibitastaðir og staðir með þungum og brösuðum íslenskum heimilismat í miðborginni. Gestir og gangandi gætu örugglega fengið góðar lambakótilettur í raspi ef heppnin væri með þeim.“

Og áfram heldur fréttamaðurinn:

„Þeir sem vilja þrengja að fjölmenningunni í stað þess að taka henni opnum örmum eru þess vegna óttalegir kótilettukallar- og konur. Kótilettufólkið fór á límingunum yfir áformum um mosku í Sogamýri og notar frasa eins og „það þarf að laga til í eigin garði“, heimahögunum, áður en hægt er að taka á móti fleiri innflytjendum. Kótilettufólkið myndi kjósa Íslandsdemókratana ef sá flokkur væri eitthvað annað og meira en hópur af furðufuglum með stór barmmerki á krá í Kópavogi. Eini munurinn á íslensku furðufuglunum og Svíþjóðardemókrötunum er sá að þeir síðarnefndu fengu trúverðuga einstaklinga í forystusveit sína. Rasisti í jakkafötum með góða menntun verður samt alltaf rasisti.“

Þetta er furðulegt viðhorf sérstaklega þar sem það virðist skrifað í þeim tilgangi að boða manngæsku og umburðarlyndi. En að tala niður til annarra sem ólík viðhorf hafa, og uppnefna þá til þess að hefja sjálfan sig upp er eitt form af rasisma. Vissulega er hér reynt er að leiða athygli frá eigin fordómum með því að benda á fordóma annarra og hrópa. Tilvitnun í hið heilaga orð á því vel við hér. „Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?“ 

Fullyrðingar sem settar eru fram í skrifum fréttamannsins standast líka illa skoðun og lýsa mjög fordómafullu viðhorfi. Tökum dæmi.

Fréttamaðurinn skrifar: „Á árinu 2015 voru þrír af hverjum fjórum nýjum skattgreiðendum erlendir ríkisborgarar en einn af hverjum fjórum var Íslendingur.“ Þetta gengur vart upp af þeirri einföldu staðreynd að á Íslandi fæðast að meðaltali um 4000 börn sem við getum þá gróflega yfirfært sem 4000 skattgreiðendur á ári. Þrátt fyrir nokkurn innflutning á fólki er af og frá að árlega bætist við hér  12.000 útlendingar sem greiða skatt flutt til samfélagsins.

Fréttamaður skrifar: „Ef útlendingar hefðu ekki sest hér að og auðgað íslenskt samfélag þá væru bara amerískir skyndibitastaðir og staðir með þungum og brösuðum íslenskum heimilismat í miðborginni. Gestir og gangandi gætu örugglega fengið góðar lambakótilettur í raspi ef heppnin væri með þeim.“
Matreiðsla er handverk eða iðnaður og fjölbreytni í framboði á mat er ekki bundið við fæðingarstað þeirra sem hann gera. Hér á landi hefur verið úrval veitingastaða með rétti hvaðan úr veröldinni í áratugi. Hér hafa einnig íslenskir matreiðslumenn eldað sjávarfang með listfengi og vakið athygli víða um heim fyrir hið norræna eldhús þar sem hráefni úr heimabyggð er lykilatriði.

Veitingahús og svo margt annað í okkar menningu hefur orðið fjölbreyttara og ríkara vegna erlendra aðila sem hingað hafa flutt og gert mannlíf okkar auðugt.  Sleggjudómar þeirra sem telja sig þess umkomna að hafa vit fyrir öðrum, gera það ekki.

 

Mynd: Visir.is

Comments

comments